þriðjudagur, mars 29, 2005

Af umburðarlyndi og æðruleysi

Síðan ég komst til vits og ára hef ég haldið því fram að ég sé nokkuð umburðarlynd manneskja. Að öllu jöfnu er mér nákvæmlega sama hvað aðrir gera við líf sitt svo lengi sem það káfar ekki upp á mig né mína. En ég er eiginlega farin að hallast að því að þetta sé rangt hjá mér. Ég hef nefnilega ekki snefil af umburðarlyndi gagnvart heimsku og heimskulegum hlutum. Eða réttara væri að segja gagnvart því sem mér finnst vera heimska og heimskulegt. Þarna spilar líka æðruleysið inn í en ég hef nýlega gengist við því að mér var einfaldlega ekki úthlutaður snefill af þeim annars ágæta og mjög svo nytsamlega mannkosti. Ég ÞOLI ekki að geta ekki stundum breytt hlutum sem mér finnast að ættu að vera öðruvísi en þeir eru, þetta vita þeir sem þekkja mig og hafa eflaust þurft að tileinka sér hvort tveggja umburðarlyndi og æðruleysi við að þurfa að hlusta á mig pirra mig á hinum ýmsu málum í gegnum tíðina. Sjálfri mér til varnar get ég sagt að þetta vonda skap mitt endist yfirleitt ekki mjög lengi í mesta lagi nokkrar mínútur í senn sem verður að teljast mér til tekna þegar hlutirnir eru settir í samhengi.
Ég veit að hið rétta væri eflaust að taka sig saman í andlitinu og reyna að verða betri manneskja, ef mig svíkur ekki minni (sem er þó frekar líklegt þar sem ég þráist af CRAFT* á háu stigi) þá hljóðaði hið árlega áramótaheiti mitt upp á einmitt það þetta árið. Stundum hef ég bara ekki orku í að vera betri manneskja. Stundum langar mig bara að vera geðvond og pirruð, sérstaklega á dögum eins og í dag þar sem ég er sárþjáð af ennisholukvefi.
Var samt ekki einhvers staðar skrifað að the path to enlightenment starts with self-knowledge? Nú ef svo er er ég þá ekki þokkalega vel sett að gera mér grein fyrir þessum veikleikum mínum? Að vita að maður veit ekki neitt er nefnilega að vita heilmargt...... :)
*CRAFT = Can´t remember a fu***** thing
Free counter and web stats