miðvikudagur, október 18, 2006

Kerfi á vitleysunni

Ég er ótrúlega vanaföst manneskja þegar kemur að sumum hlutum. Ég set til dæmis lyklana mína og veskið mitt alltaf á sama stað þegar ég kem inn. Nema hvað í morgun þegar fara átti með barnið til tannlæknis, korter yfir snemma að mér fannst þá fann ég hvergi hallæris veskið. Upphófst mikil leit þar sem öllu var snúið við, rakið aftur hvenær ég var með það síðast, hringt í matarbúðina og rifið í hár sér í örvæntingu o.sv.frv. Ég stundum fengið að heyra það að ég sé nú frekar svona kærulaus og gleymin en málið er að þó hlutirnir séu soldið í svona vitleysu hjá mér stundum þá er ég samt með kerfi á vitleysunni (sem er betra en að vera með vitleysu í kerfinu ef þið hugsið út í það) og ég veit oftast hvar hlutirnir eru þegar ég fer að rifja upp hvenær ég notaði þá síðast (nema pokinn frá Nýlistasafninu í Madrid, hann finnst hvergi og hef ég grun um að hann sé á herbergi 712 á Miguel Angel Occidental hótelinu góða). En sumsé þar sem ég hafði ekki fylgt vananum og sett veskið í gluggakistuna á eldhúsglugganum þá bara fann ég það alls ekki. Ég var orðin mjög frústreruð enda sá ég amk dagsvinnu við ritgerðina fjúka út um gluggann þar sem mér væri um megn annað en að sitja og obsessa um það hvar veskið gæti verið. En nema hvað, þar sem ég fór þriðju umferðina í gegnum yfirhafnirnar í fatahenginu þá fannst gripurinn (í vasanum á vesti sem ég nota afar sjaldan). Þetta kennir manni að vera ekkert að fokka í kerfinu - það veit ekki á gott.
Free counter and web stats