sunnudagur, ágúst 17, 2008

Fjarðarkaup

Þetta er nýja uppáhaldsbúðin mín. Slysaðist inn í hana um daginn þegar mig vantaði sárlega að komast í búð sem opnaði fyrir kl. 12 en var hvorki Nóatún né Hagkaup.
Nema hvað, þessi búð er algjör snilld. Eins og að koma í kaupfélag í kringum 1988. Svona búð sem selur svolítið af öllu (t.d. búsáhöld, skólavörur og prjónadót) og grænmetið er verðmerkt með neon-appelsínugulum handskrifuðum kartonum. Svo er hún líka bara með æðislegt kjötborð og bakarí og starfsfólkið er í svona sloppum sem er eru ermalausir og farið er í þá yfir sín eigin föt. Ég man eftir að hafa klæðst svoleiðis í Kaupstað (þessum í Mjódd) árið 1987.
Ekki skemmdi að verðið var hreint ekki svo slæmt og miklu betra en í okurbúllunum Hagkaupum og Nóatúni.
Mæli með henni fyrir þá sem eiga ferð í Fjörðinn.
Free counter and web stats