China blue
Var að koma af kvikmyndahátíð sem haldin var af deildinni minni. Ég hafði að vísu bara tækifæri til að fara á eina mynd af 4 sem sýndar voru í dag. Sú hét China blue og er tekin inni í gallabuxnaverksmiðju í Sanxi sem er nálægt Canton í S-Kína. Fylgst var með ungri stelpu Jasmine þar sem hún flytur úr sveitinni sinni í Mið-Kína og "freistar gæfunnar" í stórborgunum líkt og um 130 milljónir annarra sveitakrakka gera árlega. Þetta er fólkið sem meðal annars saumar fötin sem við hérna á Vesturlöndum göngum í.
Týpískur vinnudagur hjá Jasmine og vinnufélögum hennar er 15 - 18 klst og oft er unnið allan sólarhringinn þegar pantanir eru komnar á eftir áætlun. Tímakaupið er aðeins misjafnt eftir því hvert verkefnið er en Jasmine þessi vann við að klippa alla lausa þræði af buxunum áður en þær eru pressaðar. Það tekur hana ca. 30 mín að klára einar buxur og fyrir það fær hún um 6 US cent á tímann eða um 4,3 ISK. Fyrsta mánuðinn fékk hún ekkert borgað því fyrstu laununum er haldið sem "tryggingu" fyrir húsnæðið (12 deila herbergi) sem útvegað er af verksmiðjunni og er í verksmiðjubyggingunni. Laun eru greidd eftir dúk og disk (en eru þó greidd) og rukkað er fyrir allar aukasporslur svo sem heitt vatn til að þvo sér og fötin sín, mat og húsnæði. Ef upp kemst um leti eða þú ert seinn í vinnuna ertu sektaður. Ef þú stelst út fyrir verksmiðjuveggina á kvöldin ertu líka sektaður.
Sýndur var samningafundur verksmiðjueigandans og stór bresks kaupanda þar sem samið var um verð á gallafatnaði og þegar verksmiðjueigandinn bauð verðið $4.3 pr. flík (sumsé ca. 310 ISK) var honum sagt að það væri of hátt og kaupandinn hefði ekki efni á að borga meira en $4 TOPS!
Samkvæmt viðtölum við eftirlitsmenn "kínversku vinnumálastofnunarinnar" var þessi verksmiðja með þeim betri á svæðinu sem þekkt er fyrir fataverksmiðjur sínar.
Fram kom að ef verksmiðja reyndi að greiða lögbundin lágmarkslaun og virða hvíldartíma starfsmanna er ekki sjéns að sú verksmiðja gæti staðið undir þeim kröfum um framleiðslukostnað sem vestrænir viðskiptavinir eins og t.d. Wal-Mart og Levi's gera. Það má hugsa þetta næst þegar maður kaupir flík sem er "made in China"
Auðvitað hefur maður heyrt þessar sögur áður og veit að þetta viðgengst en manni varð samt hálfflökurt að sitja og horfa á þetta og sjá aðstæðurnar sem fólki er boðið upp á. Það að sjá andlit og nöfn sett í samhengi við þessa iðju gerði þetta allt miklu raunverulegra. Ömurlega döpur hlið á hnattvæðingunni. Á sama tíma getur maður þó ekki varist þeirri hugsun hvað þessar stúlkur væru að gera ef þær væru ekki að vinna við saumskapinn. Maður reynir að gerast ekki sekur um relativisma en væru þær ef til vill bara worse off?
<< Home