þriðjudagur, nóvember 07, 2006

Snilldarráð

Sennilega hefur hefðbundin póstþjónusta átt á brattann að sækja með tilkomu netsins. Ég veit það svosem ekki ég bara get mér þess til. En fólk þarf engu að síður á þessari þjónustu að halda og ég veit til að mynda fátt skemmtilegra en að fá óvænta kveðju eða pakka á þennan gamla góða máta. Dalandi viðskipti geta því vel verið ástæða þessarar fyndnu uppákomu sem ég lenti í í dag. Ég var sumsé að senda smá pakka í annað land og án þess að upplýsa um innihaldið (viðtakandinn gæti verið að lesa) þá setti ég þetta í sérstakt fóðrað umslag sem var u.þ.b. A4 að stærð. Nú ég fer svo á pósthúsið og ætla að senda herlegheitin. Það var auðsótt mál og vó pakkinn um 680 gr. Það þýddi samkvæmt áberandi upphengdri verðskrá að hann myndi kosta mig 130 SEK í burðargjald. En babbaraa ekki er sagan öll. Stúlkan tekur þá upp forláta spjald með gati á, nokkurs konar eftirlíking af bréfalúgu og stingur bögglinum í gegnum það. Segir svo "það verða 141 SEK takk!" Ég hváði og benti á verðlistann (ég var nefnilega akkúrat með 140 í reiðufé og nennti ekki að fara að borga með korti kæmist ég hjá því) "Já en það er aukagjald ef böggullinn kemst ekki í gegnum staðlaða bréfalúgu" "En pakkinn minn komst í gegnum þetta spjald sem þú varst að máta hann við" - "" sagði hún og bætti svo við "en hann komst næstum því ekki"
Þetta finnst mér algjör snilld! Fín leið að drýgja tekjurnar. Ekki að ég hafi ekki efni á að borga þessar auka 11 krónur en mér finnst röksemdin dásamleg. Kannski mar ætti að fara að prófa þetta trix, t.d. á hótelinu hans pabba. "heyrðu fröken, þú rukkar mig fyrir tvær nætur" - "já þú varst næstum því tvær"
Free counter and web stats