þriðjudagur, maí 03, 2005

Að flytja

Rosalega á maður eitthvað mikið af 'drasli'. Það kemur bersýnilega í ljós þegar maður flytur. ÚFF, ég er nú öllu jöfnu fremur dugleg að henda dóti (mótmæli þeir sem telja ástæðu til) sem í mínum bókum er að vera betri en móðir mín sem klippir samviskusamlega út alls konar greinar og dót um allt milli himins og jarðar til að 'geyma'. Þessi geymsluhaugur lifir nú fremur góðu lífi í bílskúrnum heima föður mínum til mikillar armæðu. En þetta var nú smá útúrdúr. Ég komst nefnilega að því um helgina þegar ég flutti heimili okkar mæðgina af Bifröst og til borgar óttans aka Reykjavíkur að ég á ferlega mikið af svona hlutum sem ekki hafa skilgreint hlutverk á heimilinu. Lausnin hingað til hefur falist í því að stinga þessu í kassa, ofan í skúffur eða inni í skápa. Yfirleitt með hugsuninni 'æi það er nú synd að henda þessu' eða 'ég á örugglega einhvern tíma eftir að nota þetta'. Hin síðarnefnda átti yfirleitt við eitthvað fatakyns og bar fataskápurinn minn þess óneitanlega merki. Ég komst hins vegar að því þegar ég horfðist í augu við söfnunar- og nýtnisáráttu mína að sumt af þessu myndi ég sannarlega aldrei nota aftur og annað hefði ég einfaldlega aldrei átt að nota to begin with. En sumsé, ég er þó nokkrum pokum og kössum léttari og fengu samstarfskonur mínar að njóta góðs af sumu en Rauði Krossinn öðru. Njótið vel.
Annars er íbúðin mín í H57 næsta verkefni. Nú skal tekið til hendinni og gert flest það sem ég sló á frest í fyrra þegar ég fékk hana afhenta. Til dæmis stendur til að mála ýmislegt og laga annað. Ég hlakka eiginlega ótrúlega mikið til og ekki er verra að hafa sína eigin prívat Völu Matt (lesist Maj-Britt) til skrafs og ráðagerða sem hefur mun betra 'auga' en ég fyrir svona hús&hýbýlis málefnum. Stefni að því að bjóða heim að afloknum breytingum í byrjun júní.
Nöldr vikunnar fær veðurfarið á þessu blessaða skeri sem við búum á, þurfti actually að skafa (as in snow people) af bílnum mínum í morgun. Það er 3. maí í dag fyrir ykkur sem áttuðuð ykkur ekki á því. Dauði og #@&(%$#" djöfull.
Free counter and web stats