sunnudagur, október 26, 2008

Hvenær ber maður ábyrgð á eigin gjörðum

Ég get ekki annað en velt þessu fyrir mér þegar ég fer á bloggrúntinn og sé hverja færsluna á fætur annarri þar sem fólk frábiður sér ábyrgð á þessu ástandi sem við - sem þjóð - erum komin í. Nett litla gula hænan í þessu "Hundurinn sagði ekki ég, grísinn sagði ekki ég etc" - enginn vill kannast við að hafa tekið þátt í vitleysunni og allt í einu virðumst við komin í kapp um hver á elsta bílinn og ljótasta og óuppgerðasta húsið. Soldið fyndið.
Þrátt fyrir að enginn kannist við neitt og allir hafi séð þetta fyrir þá ljúga hagtölurnar ekki um okkur sem þjóð. Né önnur tölfræði. Einhvern veginn seldust hérna á síðustu árum hundruð ef ekki þúsundir sumarbústaða, hjólhýsa, nýrra bíla (ófáir fluttir inn frá Ammríkunni beint af því dollarinn var svo hagstæður). Fasteignamarkaðurinn var gjörsamlega á suðupunkti og sennilega hafa aldrei selst fleiri utanlandsferðir. Við söfnuðum skuldum sem aldrei fyrr. (skuldir heimilanna voru ekki nema eittþúsundogsexhundruðmilljarðar í júní 2008). Hversu mikið af því eru yfirdráttarskuldir er ég ekki viss en man eftir að hafa heyrt ógnvænlegar tölur.
Það virðast mjög margir hafa þá sögu að segja að bankinn þeirra hafi ráðlagt þeim illa/vitlaust eða beinlínis þröngvað upp á þá láni sem þeir vildu alls ekki. Margir undrast á yfirdráttarlánum unglinga og finnst allir nema þeir sjálfir eigi að bera ábyrgð á þeim. Þess vegna get ég ekki varist þessari hugsun. Hvenær ber maður ábyrgð á eigin gjörðum?
Ég hef átt í bankaviðskiptum frá því ég byrjaði að vinna 11 ára gömul (reyndar lengur, man eftir að hafa átt Óskars sparibauk í gamla Iðnaðarbankanum þegar ég var 9 ára). Á öllum þeim tíma sem ég hef átt í viðskiptum við bankann minn (lengst af Íslandsbanka/Glitni en líka Landsbankann) hefur mér aldrei verið boðin yfirdráttur - að fyrra bragði - né heldur hefur verið reynt að selja mér bílalán eða sjóðaáskrift eða neitt annað þvíumlíkt. Það mætti eflaust flokkast sem léleg þjónusta þar sem það er ekkert leyndarmál hver tilgangur banka er. Ég er með þessu ekki að segja að þessi sölumennska eigi sér ekki stað, einungis það að mér hefur aldrei verið boðið neitt af þessu að fyrrabragði. Það neyddi enginn upp á mig erlenda myntkörfulánið sem ég er með né platínum kreditkortinu mínu með milljón króna heimildinni (hvort tveggja þurfti ég raunar að hálfpartinn væla út).
Ég ætla hins vegar bara að játa það skilyrðislaust að ég tók þátt "góðærinu" eða í það minnsta naut góðs af ástandinu.
* Ég lifði kóngalífi á LÍN láninu mínu (sem var heilar 50þús kr. á mánuði skólaárið 2005-6) meðan ég var námsmaður í útlöndum.
* Ég fór í fleiri utanlandsferðir og eyddi í þeim helling af peningum vegna þessa hagstæða gengis.
* Ég naut ennfremur lágs gengis krónunnar í lægra vöruverði hérna innanlands.
* Ég naut góðs af hækkun íbúðaverðs og seldi íbúðina mína með 6 milljóna kr. hagnaði vorið 2007.
* Ég fékk vel launaða vinnu í "útrásarfyrirtæki" og naut alveg örugglega launaskriðsins sem ríkti á almennum vinnumarkaði og skilaði mér sem og öðrum um 25% kaupmáttaraukningu.
* Ég naut góðs af lækkun tekjuskattshlutfalls - svona svo eitthvað sé nefnt.
Ég get því ekki né reyni að firra mig ábyrgð á "ástandinu".
En það var svosem ýmislegt sem ég gerði heldur ekki
* Ég lifði ekki um efni fram
* Ég safnaði með blóð svita og tárum fyrir útborguninni í fyrstu íbúðinni svo ég þyrfti bara að taka 90% lán
* Ég safnaði ekki yfirdráttarskuldum
* Ég keypti mér hvorki hjólhýsi né sumarbústað - en keypti hins vegar 10 ára gamalt fellihýsi
* Ég keypti mér ekki nýjan bíl (bíla) - en þó nokkra fallega notaða :)
* Ég keypti mér ekki hús sem var dýrara en ég vissi að ég hefði efni á og endurnýjaði svo allt innanhúss til að toppa.
* Ég notaði ekki arðinn af íbúðarsölunni til að kaupa mér hlutabréf
* Ég tók ekki lán til hlutabréfakaupa
* Ég endurfjármagnaði ekki húsið til að taka út eigið féð og eyða því í neyslu
Á öllu ofantöldu tek ég fulla ábyrgð. Því góða og því slæma og ég sé svosem ekki eftir neinu. Það þjónar heldur engum tilgangi, því verður ekki breytt. En margir - ALLS EKKI ÞÓ ÖLL ÞJÓÐIN, þannig að þeir sem kusu vinstri græna og stunduðu sjálfsþurftarbúskap síðustu 17 ár geta því sleppt því að taka þetta til sín - gerðu margt af því síðartalda og allir sem hér bjuggu nutu góðs af því fyrrtalda. Þess vegna skil ég ekki alveg af hverju einhver annar en þeir sjálfir eiga að taka ábyrgð á því. Hvernig getur það verið einhverjum öðrum að kenna? Ég hef alveg hreint ágæta sjálfsmynd en get ekki fallist á að það þurfi einhverjar súpergáfur til að sýna smá hófsemi í neyslu.
Nú gætu einhverjir haldið að af því að ég vinn í banka þá sé ég bara að reyna að frýja þá ábyrgð á ástandinu. Það er samt frekar ódýr röksemdarfærsla. Ég hef reyndar bara unnið í banka í 2 ár en hef átt í viðskiptum við þá í 23 ár og hef aldrei á þeim tíma komið mér í fjárhagsleg vandræði vegna þess að þeir neyddu upp á mig láni fyrir neyslu sem þeir öttu mér út í. Það er kannski bara eðli banka að vera hataðir. Ef þeir vilja ekki lána þér nóg er það léleg þjónusta en ef þeir lána þér of mikið bera þeir ábyrgð á fjárhagslegri ógæfu þinni. Ég veit það ekki.
Þegar ég les yfir þessar hugleiðingar um ábyrgð þá er ekki úr vegi að víkja að ábyrgð útrásarvíkinganna svokölluðu. Bera þeir þá enga? Jú að sjálfsögðu gera þeir það. Alveg helling. En ég er orðin leið á þessari barnalegu söguskýringu að þetta sé allt þeim að kenna. Ég er bara að reyna að benda á að við gerðum alveg helling sjálf, hvort sem okkur líkar það betur eða verr eða viljum viðurkenna það eða ekki. Mikla ábyrgð bera líka stjórnvöld og það kaus þau engin nema við sjálf. Það er nú helvítis gallinn við lýðræðið. Meirihlutinn ræður.
Það er nefnilega tilfellið að kreppur og niðursveiflur koma reglulega. Við vorum ekki í ósvipuðum sporum eftir DOT.com æðið skók heimsbyggðina. Man einhver eftir 2001 og 2? Falli krónunnar (dollarinn á 119 kr), gríðarskuldum heimilanna og ógnvænlegum viðskiptahalla sem fylgdu í kjölfar uppsveiflu, kaupmáttaraukningar, hækkunar hlutabréfaverðs og aukinnar einkaneyslu. Sound familiar? Þá var útrásin ekki hafin og bankarnir enn í eigu ríkisins. Kosturinn fyrir litla þjóð var að þá kom niðursveiflan ekki ofan í verstu fjármálakreppu sem riðið hefur yfir heiminn síðan 1929. Þetta hjálpast hins vegar allt að núna.
NEI mér finnst ekki að íslenska ríkið eigi að borga allar skuldir bankakerfisins. En við verðum að borga sem nemur þjóðréttarlegum skyldum okkar skv. EES. Við myndum ætlast til þess af öðrum þjóðum ef dæminu væri snúið við. Ég er líka svo mikil bjartsýnismanneskja að ég held ekki að okkur verði gert að greiða meira en við reasonably þolum. Það er nefnilega engin þjóð í heiminum - sem býr við sæmilega þróað fjármálakerfi - sem gæti staðið undir öllum innlánum bankanna sinna ef ætti að greiða þau samtímis út, hvað þá heildarskuldum þeirra. Þess vegna væri galið ef alþjóðasamfélagið færi fram á það við 300þús. manna þjóð með ónýtt fjármálakerfi.
Þetta held ég - Pollýannan sem ég er - að tíminn muni leiða í ljós að þjóðir heimsins átti sig á.
Free counter and web stats