mánudagur, nóvember 24, 2008

Enn af bankaleynd og öðrum óþarfa

já hún er nú meira pjattið þessi bankaleynd. Ég veit ekki hvort ég á að hlægja, gráta eða fyllast ofsahræðslu þegar ráðherra dómsmála er farin að tala um bankaleynd eins og það sé eðlilegasti hlutur í heimi að hún víki. Að hún sé jafnvel bara barn síns tíma. (sjá blogg Björns í gær).
Að ætla að afnema bankaleynd að hluta er eiginlega eins og að vera "pínulítið óléttur" þ.e. ekki hægt. Það hlýtur eitt að þurfa yfir alla að ganga og þá væri fínt að allir byrjuðu bara að opinbera sín persónulegu fjármál núna strax. Hvað þeir skulda í húsunum sínum, á hvaða kjörum etc. Svo ætti líka að opna bókhald stjórnmálaflokkanna og ráðamenn eiga vitaskuld fyrstir allra að gera hreint fyrir sínum dyrum í þessum efnum. Þetta myndi líka algjörlega útrýma vandamálinu við fleytingu krónunnar. Ef menn halda að hún muni veikjast við það þá verður það hjóm við hliðina á því sem mun gerast ef fólk hefur alvöru ástæðu til að ætla að bankaleynd haldi ekki á Íslandi. Spennið beltin börnin mín, þá fyrst getum við farið að tala um fjármagnsflótta.
En við skulum ekki þar við sitja. Við skulum líka sammælast um að það megi henda fólki í fangelsi fyrir að grunur leiki á um að þeir hafi brotið af sér. Jafnvel helst líka þrátt fyrir að þeir hafi í raun ekkert gert það, það ætti að duga að okkur finnist bara að þeir eigi það skilið. Það er svo miklu hreinlegra og auðveldara og svo eru allir embættismenn landsins svo bullandi vanhæfir hvort sem er að þeim er ekki treystandi fyrir því að rannsaka neitt.
Að lokum eigum við svo að opinbera læknaskýrslur fólks líka. Ekki viljum við að veikt fólk og fólk sem er jafnvel með ættgenga sjúkdóma geti verið að vinna og það jafnvel við hliðina á okkur. Ímyndið ykkur hvað þetta myndi spara okkur í útgjöldum vegna t.d. veikindadaga og annars slíks óþarfa.
Já þegar allt þetta er gert þá verður þetta nú samfélag sem er þess virði að lifa í.
p.s. vil samt taka fram að mér finnst ekki að neitt af þessu eigi að taka til mín enda mín réttindi öll varin af persónuverndarlögum og öðrum slíkum lögvörðum réttindum. Nei þetta á bara við um það fólk sem ég hef ímugust á og eða er mér ekki þóknanlegt.
Free counter and web stats