miðvikudagur, desember 17, 2008

Ljóð sem tala til manns

Ég birti fyrir nokkrum vikum ljóð eftir Kristján frá Djúpalæk sem snerti einhverja strengi þegar ég las það á málverki fyrir um ári síðan. Það heitir Gleðidansinn. Ég ætla ekki þykjast hafa lesið eitthvað mikið eftir Kristján í gegnum tíðina en það vill svo til að í morgun var smá svona aðventuhugvekja hérna í vinnunni þar sem lesið var þetta ljóð. Það vill svo til að það er líka eftir Kristján. Það snerti ekki síður strengi og því ákvað ég að skella því hérna inn. Mér finnst þetta mikil viska og heillvænleg til að hafa að leiðarljósi.


Mitt faðirvor

Ef öndvert allt þér gengur

og undan halla fer

skal sókn í huga hafin

og hún mun bjarga þér.

Við getum eigin ævi

í óska farveg leitt

og vaxið hverjum vanda,

sé vilja beitt.




Hvar einn leit naktar auðnir,

sér annar blómaskrúð.

Það verður, sem þú væntir,

það vex, sem að er hlúð.

Því rækta rósir vona

í reit þíns hjarta skalt,

og búast við því besta

þó blási kalt.



Þó örlög öllum væru

á ókunn bókfell skráð,

það næst úr nornaböndum

ef nógu heitt er þráð.

Þrjú orð að endurtaka,

ég er við hvert mitt spor:

fegurð, gleði, friður-

mitt faðirvor.

Kristján frá Djúpalæk
Free counter and web stats