þriðjudagur, nóvember 08, 2005

Hversdagsleiki

Ætli Asíubúar sjái almennt frekar illa? Þetta var ég að hugsa í tíma í dag eftir að heilinn í mér hafði gefist upp á að reyna að "afkóða" það sem kínversk bekkjarsystir mín var að reyna að koma frá sér um samband hnattvæðingar og nútímavæðingar í Asíu. Ég veitti því nefnilega athygli að hún var sú eina af 12 Kínverjum /Taiwönum sem þarna inni voru sem var EKKI með gleraugu. Við nánari eftirgrennslan kom í ljós að þetta voru meira að segja í öllum tilvikum frekar þykk gleraugu. Ég horfði einu sinni á Andrew Dice Clay uppistand þar sem hann gerði grín að Asíubúum og getu þeirra (eða öllu heldur vangetu) til að keyra bíl, hann kenndi um augunum þeirra og benti á að það væri erfitt að sjá með augum 3/4 lokuð. Ég held þó samt að það komi gleraugnanotkun ekki sérstaklega við.
Annars er ofboðslega grámyglulegur mánudagur að kvöldi (og rúmlega það að vísu) kominn hérna í Lundi. Við virðumst hafa siglt svo um munar inn í rigningartímabilið. Alltaf rigning sem er ótrúlega lítið spennandi þegar maður er á hjóli (eins og áður hefur komið fram).
Fór ekki í ræktina í dag, þrátt fyrir yfirlýsingar um annað. Til að bæta gráu ofan á svart kláraði ég kúlupokann sem Gróa kom með meðan ég las um áhrif alþjóðavæðingar (globalization) og lýðræðisvæðingar (democratization) í Asíu. Þið mynduð ekki trúa því hvað þessi tvö orð koma oft fyrir í lestextanum, þau og orðið liberalization. Ofsalega hrifnir af orðum sem enda á -zation og -ism. Það eru endalausir -ismar í gangi í þessum fræðum.
Blessuð sé minning (lang) ömmu Ragnheiðar sem hefði orðið hvorki meira né minna en 106 ára í dag. Hún dó sátt við Guð og menn þ. 10 september 2000, nálægt því 101 árs að aldri. Magnað að hafa upplifað þvílíka umbrotatíma. Að fæðast bókstaflega í moldarkofa, upplifa tvær heimsstyrjaldir, Kreppuna, húsbruna, makamissi, barnsmissi, ótrúlega umbrotatíma í íslensku efnahagslífi og fá svo að deyja friðsællega á einu fullkomnasta dvalarheimili á Íslandi. MAGNAÐ enda var hún amma mín alveg ótrúlega mögnuð kona. Ég er svo sannarlega ríkari fyrir að hafa átt hana svona lengi eins og ég gerði.
Free counter and web stats