"Grænn friður" og annað óþolandi lið
Það er einn gallinn við að búa í svona háskólabæ að ef maður hættir sér út úr húsi þá eru allar líkur á því að maður sé hundeltur af einhverju uppáþrengjandi fíflinu með blæðandi hjarta fyrir nýjasta gælumálefni góðgerðarstofnana. Sérstaklega er ég komin með nóg af liðinu frá Greenpeace sem lætur ekkert tækifæri ónotað að reyna að tæla mann til að ganga til liðs við sig. Það nýjasta er að vera búin að stilla upp útsendara sínum fyrir utan aðalbókasafnið og stökkva á mann um leið og maður reynir að laumast út. Lenti í einum svona um daginn. Hann var agalega glaður að sjá mig (sem ég tók ekkert persónulega) hengdi sig á mig og byrjaði með ræðuna um hvað heimur versnandi fer og bla bla bla bla bla - ég reyndi að segja honum að ég væri á hraðferð heim að elda mér hvalkjöt og bjóða í uppstoppaða risapöndu á E-bay en hann gaf sig ekki og hélt áfram lestrinum um að mengun úthafa og þynningu ósonlagsins og klikkti út með spurningunni "Don't you care about our environment?" Ég svaraði hreinskilnislega "No, not really". Ó Ó Ó Ó hann var svo sár, svo sár. Horfði á mig hundshvolpaaugum og lagði hægri hönd á hjartastað eins og ég væri að brjóta í honum þetta mikilvæga líffæri með áhugaleysi mínu. (Hann gat náttúrulega ekki vitað að ég á barn og að þessi svipur er lööööö-höngu hættur að virka á mig.)
Ég er nú samt ekki nema í meðallagi vond manneskju, ég styð Íslandsdeild Amnesty í hverjum mánuði og eyði tugum þúsunda (ekki lygi) fyrir hver jól í að styðja alla sem banka hjá mér og reyna að selja mér "pappír og berjaljós" - já eða bara jólakort og konfekt. En það er einmitt málið, ég er kaupandi þegar kemur að svona góðgerðarmálum. Ekta feit, hvít vestræn letibykkja sem nennir ekkert að gera en vill bara fá að borga. Er það ekki bara í góðu lagi?
<< Home