mánudagur, september 04, 2006

Kóngsins Kjöbenhavn

Það var ástæða fyrir því að ég nennti ekki til Köben í gær. Ég fór nefnilega í dag í staðinn. MajBritt átti leið þar í gegn svo ég fékk mér barnapíu og skellti mér yfir sundið í smá salat og hvítvín og slúður og kjaftablaður. Obbosslega gaman hjá okkur gellunum. Sigga Dóra kom að sjálfsögðu líka og áður en MajBritt kom fórum við og fengum okkur kaffi á Baresso. Ég borgaði með 50 evru seðli sem mér hafði áskotnast og fattaði þegar ég var að labba út að ég hafði heldur betur verið ofrukkuð því þegar ég reiknaði þetta út höfðu kaffibollarnar tveir kostað ríflega 100 DKK eða um 1200 kr. Þetta var náttúrulega rasstaka af verstu gerð fyrir námsmanninn en þar sem ég hafði ekki hirt um að taka kvittun (og í ljósi þess að þetta voru nú eftir allt saman DANIR sem voru við afgreiðsluna) þá nennti ég ekki að fara að rífast í þeim. En ég borga ALDREI aftur með evrum í Danaveldi, svo mikið er víst.
Svo er það bara alvara lífsins á morgun þegar skólinn byrjar hjá mér. Ég hef verið að íhuga alvarlega, já og er eiginlega bara búin að ákveða að skipta um ritgerðarefni í mastersritgerðinni minni. Nú er bara að fá approval á það hjá henni Kristinu leiðbeinandanum mínum. Það er nú varla meira en formsatriði. En ég finn að þetta er rétt ákvörðun, ég er strax miklu spenntari fyrir skrifunum, sem hafa annars hangið yfir mér frekar en verið tilhlökkunarefni, hingað til. Nú þarf kona nú samt að fara að bretta upp ermarnar ef maður ætlar að hafa 'efni' á að fara til France og svo Madridar eftir það eftir minna en mánuð.... uss uss þessir fátæku námsmenn :)
Free counter and web stats