Að fá blauta tusku í andlitið
Ég er niðurbrotin manneskja. Mér varð það á að fara á Försäkringskassan (aka 'féló') hérna í Lundi í morgun, erindið var að biðja um að húsaleigubæturnar mínar verði framvegis lagðar inn á reikninginn minn í stað þess að send yrði ávísun heim. Nema hvað í sakleysi mínu ákvað ég að spyrjast líka fyrir um barnabætur og hvernig það system virkar hérna í forræðishyggjulandinu. Hún tjáði mér það að þær kæmu sjálfkrafa þegar ég væri búin að skrá lögheimilið mitt hérna í Svíþjóð og bætti svo við ... "eða er barnið nokkuð orðið 18 ára?"
HAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAA ?????
þessari konu fannst sumsé fullkomlega líklegt að ég gæti átt 18 ára gamalt barn.
HVAÐ ER ÞAÐ ??? Viltu ekki bara sparka í mig líka og segja að ég sé feit.
Ég hrökklaðist út með þau svör að skv. þeirra gögnum væri barnið mitt eingetið þar sem enginn faðir fyndist að barninu. Ég reyndi að segja henni að þó að mér sjálfri fyndist ég vera absolut rökréttasti kandídatinn til að fæða næsta frelsara mannkyns þá væri það nú samt svo að barnið ætti föður, við að því að ég best veit, hestaheilsu 'uppi á' Íslandi. Nei því miður, hún var nú hrædd um að hún gæti því miður ekki bara tekið mín orð fyrir því. Ég þyrfti að snúa mér til þjóðskrárinnar hérna í Lundi og leiðrétta málið þar. Ég tek því sem svo að sænska ríkið greiði sumsé ekki barnabætur með eingetnum börnum, sennilega litið svo á að Almættið sé fullfært um að sjá fyrir afkvæmum sínum sjálft. Ég flýtti mér heim til að athuga hvort brauðið og fiskurinn hefðu ekki fjölgað sér margfalt síðan ég fór að heiman. En það var svosem eftir öðru, sömu 4 'lásí' sneiðarnar og ég skildi eftir þar í morgun og ekki svo mikið sem fiskisporð að sjá.
Ég þarf greinilega að fara yfir þessi mál aðeins betur.
Annars er ég búin að bæta verulega í myndasafnið okkar Egils Orra (hérna til hægri á síðunni). Þar má sjá myndir frá ferð til Danmerkur en líka frá USA í sumar og afmælinu hans Egils. Bætti líka fleiri myndum af íbúðinni 'before' og lofa að smella nokkrum 'after' myndum um leið og ég gef mér tíma til að skúra pleisið... :)
<< Home