þriðjudagur, október 11, 2005

Skrítnir Svíar og gamalt fólk

Drullaðist út á heilsugæslustöð á "Fällanum" í morgun, ekki búið að taka mig nema 3 vikur. Ætlaði í sakleysi mínu að panta tíma hjá lækni til að fá menntaðar getgátur (e. educated guess) um það sem gæti verið að hrjá mig og valda þessari endalausu þreytu/kulda/svimaköstum. En nei nei konan í afgreiðslunni horfði á mig eins og geimveru (ekki í fyrsta sinn í þessu landi sem ég fæ svoleiðis viðbrögð við því sem ég tel vera ósköp eðlilega spurningu) þegar ég sagðist vera komin til að panta tíma.
"EN EN þú getur ekki gert það á staðnum" gaggaði hún á mig.
"Nú?" sagði ég hvumsa (fyndið orð hvumsa, held ég hafi aldrei notað það áður)
"Nei nei, þú getur bara gert það í gegnum síma" sagði sloppklædda konan með þjósti.
"En ég er nú komin hingað, get ég ekki bara gert það snöggvast?" spurði ég með bjartsýni þess sem hefur augljóslega ekki nema tveggja mánaða reynslu í að díla við sænska skrifræðisveldið.
"Nei þá geturðu bara tekið númer og verður að bíða í sömu röð og þeir sem eiga þegar pantað og það eru MJÖG margir sem eiga pantað í dag" sagði hún ákveðið og vildi mjög greinilega ekki að ég fengi mér sæti og biði.
Ég var farin að halda að þetta væri systir konunnar á pósthúsinu forðum daga. Ég hundskaðist út og labbaði heim með hjólið í eftirdragi því einhver (örugglega þriðja systirin) hafði rekist í hjólið mitt og náð að kippa keðjunni af tannhjólinu. Grrrr. Meira vesenið. Í þöglu mótmælaskyni hef ég ekki ennþá hringt í heilsugæsluna sem er vitaskuld mjög óskynsamlegt. Kannski sérstaklega í ljósi þess að ég sit í ullarpeysu með teppi vafið utan um mig meðan ég skrifa þessi orð og er samt eiginlega ekkert sérstaklega hlýtt.
Altjént þegar heim kom ætlaði ég að kasta mér upp í sófa til að sjá hvað væri að gerast í Days of our Lives en nei nei þá komst ég fljótlega að því að það var rafmagnslaust (sem hafði verið samviskusamlega tilkynnt með viku fyrirvara að vísu) svo ég ákvað að drífa mig í búðina að versla. Willy's er í flesta stað alveg ótrúlega sniðug búð, ódýr og með prýðisvöruúrval. En það er alveg sama á hvaða tíma sólarhrings maður fer þangað, það eru alltaf amk 7 manns á undan manni í röð. Nema hvað, ég verslaði og fór í röðina. Þar sem ég stóð og beið langaði mig óskaplega í súkkulaði sem er bara í nammihillunni við kassa nr. 2 og ég var á kassa 7. Ég skildi körfuna eftir og hljóp eftir súkklaðinu. Þegar ég kom aftur stóð gamall kall fyrir framan körfuna mína (hafði ekki verið þar þegar ég fór) og tuðaði við konuna sína um fólk sem svindlaði sér í röðina. Þegar hann sá mig þá snéri hann sér að mér og las mér pistilinn um að þetta væri ekki leyfilegt, maður ætti að taka körfuna með sér. Mig langaði rosalega til að segja honum hvar hann gæti troðið körfunni minni ef hann hætti ekki að röfla en ég hélt í mér og brosti mínu blíðasta og sagði "já einmitt, alveg rétt ábending hjá þér". Það þaggaði niður í honum ótrúlegt en satt. Ég sór þess eið í laumi að verða ekki svona þegar ég verð gömul kelling, tuðari fram í fingurgóma!
Free counter and web stats