fimmtudagur, nóvember 10, 2005

Amma Sína

Það er merkilegt hvers maður minnist þegar fólks nýtur ekki lengur við. Ég hef stundum velt því fyrir mér (ekkert morbidly mikið en samt smá) hvers fólks mun minnast um mig þegar ég dey. Ég var nefnilega að hugsa svo mikið um hana ömmu mína í gær, en í dag eru 7 ár síðan hún kvaddi þennan heim, og það var svo sérkennilegt hvers það var sem ég minntist annars fremur.

* Ég man nákvæmlega eftir ljósu plastskálinni með rauðu röndunum sem hún bar alltaf fram í hrærðu súrmjólkina eða skyrið og að hafa setið við stóra borðstofuborðið í Hlaðbænum og borðað annað hvort ásamt brauði með malakoffi á meðan Ragnheiður Ásta Pétursdóttir las dánartilkynningar og jarðarfarir og síðan fréttirnar.

* Ég man eftir skriftinni hennar á litlu minnismiðunum sem hún skrifaði þegar maður fór út í búð fyrir hana. Fyrst 'efri' eða 'neðri' búðina í Árbænum og síðar Herjólf í Skipholtinu.

* Ég man eftir langa smjörhnífnum með gula skaftinu sem hún notaði alltaf til að skafa innan úr skálinni meðan hún hrærði deigið í smjörkökuna sína og hvernig hún lagði hann alltaf á eldhúsvaskinn á milli þess sem hún notaði hann, til að klístra ekki borðið.

* Ég man hvað hún reykti oboðslega mikið en samt hvernig það var aldrei að finna sígarettustubba eða ösku í neinum öskubakka á heimilinu lengur en 30 sek. eftir að hún drap í.

* Ég man eftir frösunum hennar og hvernig hún hristi höfuðið til annarrar hliðar þegar hún var hneyksluð eða hissa með orðunum ' ja ég skal segja ykkur það' eða ' það er ekki andsk*** laust' en líka hvernig hún kallaði mann 'ljósið sitt' eða 'elsku hjartans kellinguna hennar ömmu sinnar'.

* Ég man hvað hún var (eins og ég) mikill nammigrís og átti alltaf nammi í húsinu. Fylltan pralín brjóstsykur frá Ópal og litlar súkkulaðikúlur frá Góu en líka súkkulaðirúsínur og After Eight.

* Ég minnist þess ekki að hafa komið í heimsókn öðruvísi en að hún spyrði mann hvort maður ætti nokkurn 'aur' eins og hún kallaði alla tíð peninga og oftar en ekki bætti hún úr því ástandi ef henni fannst upp á vanta hjá manni.

* Ég man hvernig hún bar aldrei fram mjólkurfernuna heldur hellti úr henni í brúnu plastkönnuna sem síðan var sett á borðið.

* Ég man hvað það þurfti ótrúlega lítið til að gleðja hana, og hvað hún var alltaf innilega glöð bara að sjá mann.
* Ég man hvernig hún leyfði manni alltaf að leika sér með skóna hennar, og hvað mér fannst merkilegt að passa í þá þegar ég var bara 10 ára. Hún var ekki stór kona hún amma mín og notaði skóstærð 36.
* Ég man þegar 10-kallinn í myntinni og 1000 króna seðillinn komu út 1986 og hún gaf okkur einn af hvoru þrátt fyrir að það hljóti að hafa vegið meira en minna í veskinu hennar.
* Ég man eftir að hafa verið sótt út á flugvöll seint á ágústkvöldi 1983 þegar við mamma og Árni bróðir fluttum heim til Íslands héðan frá Lundi. Ég sat á milli hennar afa frammi í ameríska kagganum og tuggði hvítt 'ammerískt' tyggjó. Enn þann dag í dag hugsa ég alltaf um ömmu Sínu þegar ég finn þetta bragð.
* Ég man hvernig hún braut alltaf saman plastpokana áður en hún setti þá ofan í skúffu, það var svo skínandi dæmi um regluna sem alltaf var á öllu hjá henni Ömmu Sínu.
Auðvitað á maður ótal minningar til viðbótar en mest af öllu minnist ég þess hvað hún var yndislega hlý manneskja með frábæran húmor og hvað það var alltaf gott að koma til hennar ömmu Sínu.
Free counter and web stats