af launamálum og mótmælum
Samkvæmt nýlega birtri könnun telur meðal-Svíinn að það sé sanngjarnt að 'forstjórinn' sé með um eða rúmlega tvöföld laun 'starfsmannsins á gólfinu'. Í raunveruleikanum er þetta náttúrulega ekki þannig. Ég verð samt að segja að ég var hissa þegar ég las Metroið í dag þar sem birt var úttekt á launum ýmissa flokka yfirmanna í sænskum fyrirtækjum, jafnt einkareknum sem opinberum. Þar kom fram að hæst launaði millistjórnandinn sem könnunin tók til var markaðsstjóri Shell olíufélagsins, sem nota bene ber ábyrgð á öllu markaðsstarfi fyrirtækisins í Skandinavíu, á Stóra-Bretlandi og Írlandi. Þessi maður sem er 35 ára viðskiptafræðingur er þó ekki með nema ríflega 60 000 SEK á mánuði (sem samsvarar tæplega 497 000 ISK FYRIR skatta). Þetta fannst mér athyglivert af tvennum ástæðum
a) Hversu oft hefur maður heyrt að laun forstjóra/millistjórnenda á Íslandi (eða í íslenskum fyrirtækjum) verði að vera samkeppnishæf við það sem gerist erlendis. Augljóslega er hérna ekki verið að bera saman við Svíþjóð
b) Ég ætla mér svo sannarlega ekki að vera með mikið lægri byrjunarlaun en þetta (fyrir skatta) eftir að ég lýk þessari mastersgráðu minni og ég er þó ekki tilbúin að vera til taks 24/7 eins og þessi vesalings markaðsstjóri segist þurfa að vera þegar hann réttlætir 'ofurlaunin' sín.
---- ---- ---- ---- ---- ---- ---- ----
Annars heldur þessi múslima-mótmæla-skopteikninga-vitleysa áfram að tröllríða fréttaflutningi hérna í Svíþjóð. Nú hafa samtök múslima í Svíþjóð tilkynnt að þau hvetji sænska múslima ekki sérstaklega til forðast danskar vörur en það sé ósköp skiljanlegt ef þeir gera það. Þetta er svo mikið bull að það er ekki eðlilegt. Las nokkuð góðan pistil um það í Metro í dag líka. Leyfi mér að grípa aðeins í hana þar sem ég er einstaklega sammála höfundi
Hvernig getur teikning verið mikilvægari en líf? (höf. Boris Benulic)
"Ef blóð væri góður áburður myndi Darfur hérað í Súdan vera sem aldingarðurinn, gróðri vaxin og paradís líkast. Þar hafa janjaweedskæruliðar myrt um 300 000 manns. Þessi þjóðernishreinsun er varin með því að um sé að ræða svarta zurga (negra) sem séu neðanmálsfólk og ekki "alvöru" múslimar.
Síðustu daga hafa sameinuðu arabísku furstadæmin og Saudí-Arabía ásamt fleiri arabalöndum mótmælt kröftuglega, það hafa verið mótmælagöngur og fánabrennur. En það er ekki Súdanski fáninn sem er brenndur og það er ekki í Khartoum sem arabalöndin loka sendiráðum sínum. Það eru skopteikningar Jyllands-Posten af spámanninum Múhameð sem hafa kallað fram þessi ofsafengnu viðbrögð.
Finnst mótmælendunum sumsé að það sé alvarlegra brot gegnt Kóraninum að birta myndir af Allah og spámanni hans Múhameð en að myrða 300 000 saklausra múslima?"
LÓGÍSK hugsun? Dæmi hver fyrir sig.
<< Home