Einhvern tíma er allt fyrst....
Ég las í dag grein eftir Eirík Bergmann sem ég nokkuð sammála. (Ég hélt bara að það gæti ekki gerst ;-) Hún er um hið ástkæra ylhýra, íslenskuna okkar sumsé. Það hefur (að sögn) tröllriðið öllu heima á Íslandi umræðan um íslenskuna og hræðsluáróðurinn um að hún heyri brátt sögunni til ef málhreinsunaraðgerðir hefjist ekki hið fyrsta. Ég er í flokki þeirra sem tel mikilvægt að tungumálið fái að þróast með því samfélagi sem það tilheyrir. Ég held við getum öll verið sammála um að heimsmynd okkar sé mjög breytt frá því fyrir 50 árum. Því skyldi tungumálið ekki breytast í takt við þetta? Lítum til dæmis á barnabókmenntir. Það þarf ekki annað en að taka upp barnabók sem var þýdd eða skrifuð á þeim tíma til að sjá þessa þróun. Börn í dag skilja varla þá orðanotkun sem þar er viðhöfð - og ég græt það ekki. Ég tilheyri þeirri kynslóð sem ólst upp við að lesa Fimm- og Ævintýrabækur Enid Blyton og er í fersku minni setningar eins og 'Hvað er atarna Beta litla, hafðu hemil á hegðun þinni. Ég undrast mjög framferði þitt' og 'Þér eruð þorpari Hr. Smith'. Það talar enginn svona í dag (og gerðu raunar fáir þá) og ég get bara ekki ímyndað mér að neinum finnist góð hugmynd að hverfa aftur til þérana og fornfálegrar orðanotkunar þeirra daga.
Það sem ég er sérstaklega sammála Eiríki um er 'misskilningur' Íslendinga um færni þeirra í að beita enskri tungu. Við þurfum að hysja upp um okkur í þeim efnum og auka færnina svo sómi sé að og hafa svo vit á að skilja á milli. Nú má ekki skilja þetta sem svo að mér finnist í lagi að tala vitlausa og lélega íslensku, mér finnst að sama eigi að gilda um hana og enskuna, fólk á að sjá sóma sinn í því að tala hana rétt og vel ef það er að nota hana á annað borð. En ég tel fullkomlega raunhæft að þessar tvær tungur séu til og notaðar í sama landinu án þess að önnur gleypi hina.
Grein Eiríks má finna á heimasíðu Viðskiptaháskólans á Bifröst og Lesbók Morgunblaðsins 4. febrúar 2006
<< Home