laugardagur, júní 17, 2006

17. júní hátíðarhöld

Gleðilega hátíð kæru samlandar nær og fjær!

Er eitthvað betra en vöfflur með rjóma - ok ég hef eflaust haldið þessu fram um margt hérna á síðunni en þetta er tvímælalaust á topp tíu listanum. Við slógum upp íslensku vöfflukaffi í tilefni dagsins í dag. Sigga og Hjörtur tóku sig vel út í hlutverki gestgjafanna á 7-unni og var framsetning og skipulag dagsins til fyrirmyndar. Takk fyrir framtakið. Svo var auðvitað farið í leiki og að endingu í þann fróma leik Kubb sem er eitthvað það alsænskasta sem til er. Ég hafði með klókindum smyglað mér inn í landið án þess að hafa nokkurn tíma spilað Kubb (en það er frumskilyrði fyrir að fá leyfi til að setjast hérna að yfir höfuð). Leikurinn (fyrir þá sem ekki þekkja til) felst í því að fella kubba mótherjans með þar til gerðum keflum og að endingu fella 'kónginn' sem stillt er upp í miðjunni. Þetta er nú bara þrælskemmtilegt og ég býst við að kaupa mér eins og eitt sett af Kubb sett fyrir heimför.
Nú eftir að hafa troðið sig út af vöfflum þá fannst manni nú tilvalið að fara að éta aðeins meira og svo heppilega vildi til að Bryndís og Sigurjón voru einmitt búin að bjóða í þjóðhátíðarlamb í kvöldmat. Mums mums ekta svona 'mömmu'læri með öllu. Takk fyrir okkur Lykilkróksfjölskylda. Við verðum nú að reyna að myndast við að endurgjalda greiðann fyrir heimför (kannski ekki læri en eitthvað gott - LOFA). Mæli annars með myndashowinu hans Sigurjóns frá deginum í dag, það er með hljómlist og allt. Magnað!
Ta ta
Free counter and web stats