Sjamminn o.fl.
Hinn árlegi Sjammi er á næsta leiti, nánar tiltekið á morgun 11. júní. Sem fyrr hvílir mikill leyndardómur yfir dagskránni en vitað er að ég er í hópnum Moldvarpíu og á að mæta á Grandaveg 45 til B.J. kl. 18:00. Þemað er 'bling bling' og það er víst eins gott að fara að leggja hausinn í bleyti með skreytingar. Það er rífandi stemmning að vanda og eitt er víst, maður er aldrei svikinn af Sjammanum.
Annars er allt þetta fína að frétta. Það er óðum að koma skýrari mynd á væntanlega Svíþjóðardvöl, komin með íbúð og svona. Kämnersvägen 5D eða "fimmunni" eins og við kölluðum þetta í gamla daga. Þetta leggst rosalega vel í mig. Leikskólinn hans Egils Orra er á nr. 1 svo þetta gerist vart betra. Auk þess er íbúðin á jarðhæð sem hentar mér afar vel, get þá leyft honum að leika sér úti og fylgst vel með út um eldhúsgluggann.
Búin að vera svaðalega dugleg í ræktinni upp á síðkastið, á hverjum degi og stundum oftar, búin að 'uppgötva' eróbikk tíma sem ég hef hingað til sökum spéhræðslu ekki fyrir mitt litla líf þorað í. Þetta er mega gaman og maður svitnar eins og svín sem er náttlega rúsínan í pylsuendanum. Eða kannski réttara að segja hrökkbrauðsendanum þar sem ég borða helst ekki pylsur og náttúrulega alls ekki núna í þessu 'átaki'. Vonandi að nokkur kíló í viðbót fjúki og takmarksgallabuxurnar verði teknar í notkun innan fárra vikna. Þær passa að vísu alveg núna en það vantar ööööörfáa sentimetra uppá að þær séu þægilegar. Will keep you posted.
P.s. takmarkaðar færslur á bloggið má skýra með sambandsleysi mínu í sumarfríinu, bara svona ef þið hélduð kannski að ég væri hætt að elska ykkur.