föstudagur, mars 31, 2006

Bjútí disaster

Ég litaði á mér augabrúnirnar í gær - eitthvað fór hræðilega úrskeiðis því ég lít út eins og óskilgetið afkvæmi Krústjevs og Groucho Marx = ekki gott lúkk á kvenmanni! Hvað er til ráða? Terpentína - Ammóníak - Saltpéturssýra ?
Tvennt gæti verið orsökin:
a) ég hlustaði ekki nógu nákvæmlega á leiðbeiningar Katrínar þegar hún var að segja mér hvernig ég ætti að bera mig að (mjög líklegt)
b) ég hreinsaði efnið ekki nógu vel úr brúnunum sem olli því að þær héldu áfram að dökkna fram eftir kvöldi (einnig mjög líklegt)
Til að bæta gráu ofan á svart er ég að drepast úr harðsperrum. Ég var sko að lyfta í gær og áður en ég vissi af var ég ósjálfrátt búin að herma eftir öllum æfingunum sem gellan við hliðina á mér gerði (hún leit sko út fyrir að vita hvað hún var að gera). Hér sit ég svo með auman rass, framanverð læri og hægri öxl. Þetta er eins og hérna um árið þegar ég var komin hálfa leið austur í Hveragerði áður en ég fattaði að ég var ósjálfrátt búin að vera að elta bílinn fyrir framan mig
- maður er náttúrulega fífl .... ha!
p.s. skilaði skattframtalinu heilum 14 klst. fyrir deadline - ég held meira að segja að það sé í minna lagi skáldað þetta árið. Eða það er a.m.k. "byggt á sannsögulegum atburðum".

Næturbrölt á manni alltaf hreint

Kl. er núna 03:54 að Lundskum staðartíma og ég var rétt í þessu að ljúka við ritgerðina mína.

Í dag er föstudagur - þeink God segi ég nú bara ... ha!

fimmtudagur, mars 30, 2006

Hitt og þetta

Aldeilis ilmandi dagur í Lundi í dag. Eftirtalið leggur sitt á vogarskálarnar:
1. Það er vor í lofti og ég sá tré sem byrjað var að bruma úti á leikskóla í morgun
2. Ég fór í ræktina kl. 9 = ágætis byrjun
3. Katrín sótti mig og Bryndísi til að fara í Nova Lund
4. Ég keypti mér nýja myndavél
5. Við fórum í lunch á Espresso House = latte og Tosca 'múffa' (= 1000 kal :)
6. Ég keypti sætt páskaskraut í Indiska
7. Ég fór bæði í H & M OG Ginu = 1 bolur, 1 peysa og brúnkuboddílotion (sem ég lofa að nota)
Öllu þessu var að vísu lokið kl. 14 þannig að ég er (því miður) komin heim og neyðist samvisku minnar vegna (sem mér tekst ekki að drepa þrátt fyrir ótal tilraunir) að reyna að læra soldið.
- og já! gleymdi næstum, fann búð sem selur M & M!! Þvílík gleði, rannsóknir hafa nefnilega sýnt að ef maður étur fullt baðkar af þessu á dag þá gæti maður kannski, möguleika einhvern tíma seinna fengið krabbamein og þess vegna er þetta að sjálfsögðu bannað í landi forræðishyggjunnar. En RUSTA (já búðin heitir það í alvörunni) hefur sko sagt yfirvaldinu stríð á hendur og hefur þetta til sölu við kassana (líklega til að hægt sé að vera fljótur að henda yfir þetta lífrænt ræktuðu grænmeti ef heilbrigðisyfirvöld gera 'innrás').
- ooooh Bryndís - ég er að verða búin með @&(%#@)&! M & M-ið!!!! = nett magapína og fullt fullt af samviskubiti.

þriðjudagur, mars 28, 2006

Mæli með ...

... Syriana. Við systurnar skelltum okkur á þessa líka ágætu mynd í gær. Sé þó ekki alveg, með fullri virðingu fyrir honum Clooney litla, að þetta hafi verið eitthvað Oscar winning role sem hann var í þarna. Af 190 mín langri minn giska ég á að hann hafi verið í svona ca. 20 mín á skjánum. Að rökræðunni af gæðum og magni slepptri þá bara hef ég séð aðra (sem og hann) betri. That's all I am saying. Tekur samt ekkert frá myndinni sem er þrusugóð ádeila á nútímaspillingu og "leikina" sem þjóðir leika í samskiptum sín á milli. Mæli með henni ef þú ert fyrir sollis og ert að leita að meiru en "sprengjum-allt-í-tætlur-hasar-bílaeltingaleikjamynd".
Annars er næstum því heitt í Lundi í dag = ég er glöð kona :)

mánudagur, mars 27, 2006

Grannarnir frá helvede....

Einhvern veginn hefur dönsku þjóðinni tekist, með fullkomnum rangindum, að koma á sig því orði að þeir (Danir) séu 'ligeglad' og 'hjálplegir'. Þvílíkur fullkominn þvættingur! Danir eru ekkert ligeglade og sannarlega ekki hjálplegir. Þeir eru in fact fullkomlega the opposite of hjálplegir. Tökum sem dæmi þegar ég fór til Kaupmannahafnar á laugardaginn og ætlaði að leggja leið mína til frænku minnar sem býr á Amager. Ég fór úr lestinni á Kastrup og hugðist taka strætisvagn á lokaáfangastað. Ég lagði leið mína að básnum sem hefur rangnefnið "upplýsingar" og spurðist fyrir um leiðbeiningar til að komast þangað sem ég vildi fara og var sagt að strætó nr. 12 stoppaði beint á Italiensvej (en þar býr téð frænka mín) ENNNN strætó nr. 12 gengi því miður ekki út á flughöfn um helgar. Ég spurði þá hvort það væri betra fyrir mig að fara þá aftur í lestina niðrá Hovedbanegård og taka strætó þaðan. Nei hún hélt nú ekki, bara að fara út og taka strætó 250 og fara út úr honum á næstu stoppistöð og þar myndi ég ná 12-unni. Annars ætti ég bara að segja vagnstjóranum að ég þyrfti að komast á Italiensvej og þá myndi hann glaður segja mér hvar ég ætti að fara út. Tiltölulega lítið mál ekki satt? Jú jú ég dröslaði barninu með mér í óheyrilegum kuldanum (miðað við lok mars) út á stoppistöð og beið eftir strætisvagnstjóranum sem var - nema hvar - í kaffi. Jæja 12 mín síðar hófst reisan. Ég gerði honum grein fyrir hvert ég ætlaði og hvað mér hafði verið sagt - ekki málið. Nú ég dingla svo á næstu stoppistöð og bílstjórinn hleypir mér þar athugasemdalaust út (vitandi samt hvert ég ætlaði og verandi búin að biðja um hjálp við að komast þangað klakklaust). Vagninn er ekki fyrr runninn í burtu þegar ég tek eftir því mér til mikillar skelfingar að vagn 12 stoppar bara ekki rassgat á þessari stöð um helgar og ég er föst í miðri auðninni á Amager Strandvej með hafrokið í fangið og fremur óánægt barn í eftirdragi. Það var ekki á önnur ráð að bregða en að labba af stað og vonast til að ná leigubíl til frænku. Þeir létu að sjálfsögðu ekki sjá sig nema fullir af fólki og á endanum þurfti ég að labba í 40 mín. í hífandi roki og kulda á áfangastað. Allt vegna þess að þessum fokking strætóbílstjóra kom ekkert við þótt ég færi út á rangri stoppistöð - not his problem, þó ég hefði látið svo lítið að biðja um smá hjálp.
Fari þeir og veri þessir fokking dagdrykkjumenn og social pedagókíkar sem þeir eru. Ligeglade og hjálplegir minn aumi rass!!
p.s. nú er ég ekki svo geðveik (þó vissulega geðveik sé) að dæma heila þjóð eftir einu atviki en þetta er bara svo langt frá því að vera eina atvikið. Hvernig getur t.d. heil þjóð sammælst um það að taka bara þetta helvítis Dankort sem gilda greiðslu og ætlast til þess að maður versli samt við þá? The list goes on - oooh the list goes on.

föstudagur, mars 24, 2006

Betri líðan

Jæja fyrir ykkur sem hélduð kannski sökum færsluleysis í gær að ég væri bara dáinn þá get ég hér með staðfest að sögur af andláti mínu eru stórlega ýktar! Bara hafði ekkert skemmtilegt fram að færa (not that that has ever stopped me before) og ákvað þess vegna bara að þegja ...... svona einu sinni. Það gerist ekki oft svo njótið.
Í dag er ég sannanlega orðin hitalaus og bara hlýtur að fara að gerast að ég verði hor og slímlaus því Guð veit að ég er búinn að snýta mér í hálfan regnskóg síðustu 5 dagana. Sit að vísu uppi með hósta sem filterslaus-camel-reykingamaður-til-50-ára yrði stoltur af en svona er bara lífið. Or so I'm told. Til að halda upp á þetta ætlum við sonur minn að bregða undir okkur betri fætinum og fá okkur rúnt niður í bæ að kaupa drekasokka þar sem upp komst í morgun að það er komið stórt gat á krókódílasokkana hans. En fyrst ætla ég að make an appearance niðrí skóla.
Toot-a-loo darlings

miðvikudagur, mars 22, 2006

Dagur fjögur - punktur

Ég vil þá bjóða ælupestina formlega velkomna í hóp þess sem hrjáir mig.

ooooooohhhh put me out of my misery already!!

þriðjudagur, mars 21, 2006

Dramb er falli næst

Það er eins og við manninn mælt

- Hitinn er aftur rokinn upp í 38.5 og ég er að dreeeeeeeeeeeeeepast úr kulda
- Það snjóaði úti áðan

á ég að þora að skoða póstinn minn og eiga á hættu að deadline-ið hafi skyndilega verið fært fram til hádegis á morgun?

á jákvæðum nótum samt, ég komst úr náttbuxunum. At least that's something!

Það er daloon dagur í dag

Nei nei ekki í alvörunni en þessi dagur lofar góðu. Ekki einungis vakti sólin (JÁ SÓLIN!! :-) mig í morgun heldur er ég hitalaus, minna rám en í gær og þegar ég opnaði póstinn minn sá ég að deadline-ið á ritgerðinni sem ég hélt að ég ætti að skila í hádeginu á fimmtudaginn var fært aftur til kl. 10 á föstudagsmorguninn. Life is good!
The downside is að ég held að ég sé mjög mögulega gróin föst í flónell náttbuxurnar mínar sem ég hef ekki farið úr síðan á sunnudagseftirmiðdaginn. Þið takið því ekkert illa þó ég mæti í þeim í saumó til Billu annað kvöld - er það nokkuð stelpur mínar?

mánudagur, mars 20, 2006

Annar í eymd og volæði

Líkaminn minn er á mótþróaskeiðinu. Hann er aftur veikur, í þetta sinn hiti, beinverkir, magapína, svimi, hausverkur og almenn vanlíðan = Ö M U R L E G T. Á ekki nema milljón hluti eftir ólesna og ógerða.... pirr pirr.
Hvað er annars að frétta af ykkur?

sunnudagur, mars 19, 2006

Óskast gefins eða mjög ódýrt: V O R ! ! !

Súr sunnudagur í dag. Bólar ekki rassgat á þessu vori sem var búið að lofa manni fyrir 15. mars og ég þrái S Ó L. Amk smá hlýju - svo þarf maður að sitja undir hringingum að heiman til að segja manni hvað veðrið séð æðislegt fínt þar. 12 stiga hiti og sól+logn. Fokking greenhouse effect! What's a girl to do?
Ég er á blús!

laugardagur, mars 18, 2006

Evróvisjón a la Sverige

VÁ hvað Svíarnir eru ekki að grínast með Eurovision eða Melodifestevalen eins og hún nefnist upp á sænsku. 4 undankeppnir í fjórum borgum og nú sit ég hérna og horfi með öðru á úrslitakeppnina sem fer fram í Globen. Helv.. er nú Lena Philipson flott - 40tug kellingin - (fyrir þá sem ekki muna þá var það hún sem rúnkaði sér á míkrafónstatífinu fyrir hönd Svía í EV 2004 þegar Ruslana vann). Það var sko S K A N D A L L í fyrra þegar Martin Stenmark nokkur komst ekki upp fyrir mörkin fyrir útsláttarkeppnina í fyrra og því þurfa Svíar nú að fara í 'umspil'. Fyrirsagnir blaðanna daginn eftir EV í fyrra ku hafa verið "Förlåt Sverige" (Fyrirgefðu Svíþjóð)
Akkúrat þegar þessi orð eru skrifuð er verið að tilkynna um úrslit símakosningarinnar en keppnin stendur hörð á milli þriggja afar svona -la la- laga þar sem fremst meðal "jafningja" fer Eurovison drottning þeirra Svía (og æskuædolið mitt) hún Carola Häggkvist.
And the winner is......... C A R O L A !! (F****** shocking!)
AAAHHHHHH 'A fish called Wanda' á TV3 - that's more like it.
******
Hamingjuóskir til frænda minna tveggja þeirra Hjartar Snæs (2) og Halldórs (43) sem báðir eiga afmæli í dag!

föstudagur, mars 17, 2006

Sjálfsblekking

Ég hef yfirþyrmandi tendens til að kaupa mér alls konar 'crap' sem á einhvern veginn að bæta mann og/eða breyta. Ég á skápana fulla af alls konar 'boddílósjunum' og andlitskremum, brúnkukremum og maskörum til að sanna þetta. Það væri agalega fínt ef þetta myndi nenna að virka jafnvel þó maður noti þetta ekki. Ég er nefnilega lötust í heimi við að bera þetta drasl á mig og bíða eftir árangrinum! Ég náði nýjum hæðum í þessari áráttu um daginn þegar mér datt í hug að kaupa 5 búnt af brokkólí á tilboði í Willy's um daginn. (and you know I couldn't make this shit up) Sannfærð um það að nú myndi járnmagnið í blóðinu alveg spítast upp og ég yrði þvengmjó fyrir páska þrammaði ég heim með brokkólíið.
Skrítið hvernig það að eiga allt þetta brokkólí í ísskápnum hefur bara ekki gert neitt fyrir lærspikið mitt.
p.s. ástar- og saknaðar til hennar Ásdísar afmælisbarns who is no longer twenty-something. Ásdís mín you don't get older you just get better!!

fimmtudagur, mars 16, 2006

Gábbbnaljós? Moi?

Þá er það staðfest, geta mín til að villa á mér heimildir á sér engin takmörk. Eftirfarandi comment var á aðferðarfræðiprófinu mínu að aflokinni yfirferð....
"This is very good! /.../ You show clearly that you have understood how ontology / epistemology affect methodology /.../ "
Riiiiiiiiiiiiiiiiiight! [berist fram með kaldhæðnistóni Dr. Evil]

miðvikudagur, mars 15, 2006

"Grænn friður" og annað óþolandi lið

Það er einn gallinn við að búa í svona háskólabæ að ef maður hættir sér út úr húsi þá eru allar líkur á því að maður sé hundeltur af einhverju uppáþrengjandi fíflinu með blæðandi hjarta fyrir nýjasta gælumálefni góðgerðarstofnana. Sérstaklega er ég komin með nóg af liðinu frá Greenpeace sem lætur ekkert tækifæri ónotað að reyna að tæla mann til að ganga til liðs við sig. Það nýjasta er að vera búin að stilla upp útsendara sínum fyrir utan aðalbókasafnið og stökkva á mann um leið og maður reynir að laumast út. Lenti í einum svona um daginn. Hann var agalega glaður að sjá mig (sem ég tók ekkert persónulega) hengdi sig á mig og byrjaði með ræðuna um hvað heimur versnandi fer og bla bla bla bla bla - ég reyndi að segja honum að ég væri á hraðferð heim að elda mér hvalkjöt og bjóða í uppstoppaða risapöndu á E-bay en hann gaf sig ekki og hélt áfram lestrinum um að mengun úthafa og þynningu ósonlagsins og klikkti út með spurningunni "Don't you care about our environment?" Ég svaraði hreinskilnislega "No, not really". Ó Ó Ó Ó hann var svo sár, svo sár. Horfði á mig hundshvolpaaugum og lagði hægri hönd á hjartastað eins og ég væri að brjóta í honum þetta mikilvæga líffæri með áhugaleysi mínu. (Hann gat náttúrulega ekki vitað að ég á barn og að þessi svipur er lööööö-höngu hættur að virka á mig.)

Ég er nú samt ekki nema í meðallagi vond manneskju, ég styð Íslandsdeild Amnesty í hverjum mánuði og eyði tugum þúsunda (ekki lygi) fyrir hver jól í að styðja alla sem banka hjá mér og reyna að selja mér "pappír og berjaljós" - já eða bara jólakort og konfekt. En það er einmitt málið, ég er kaupandi þegar kemur að svona góðgerðarmálum. Ekta feit, hvít vestræn letibykkja sem nennir ekkert að gera en vill bara fá að borga. Er það ekki bara í góðu lagi?

þriðjudagur, mars 14, 2006

Dugnaðarforkurinn ég

Er búin að sitja og lesa og skrifa um frelsi fjölmiðla (eða skort á því öllu heldur) síðan kl. 9 í morgun. Án teljandi pása. Rosalegt þegar maður lendir í því að finnast námsefnið svona áhugavert.... og ég svona ung manneskjan!! Er'etta nú bara hægt? "Nej men det går inte" eins og sænskurinn elllllllskar að segja ef maður spyr að einhverju
Meira að segja er ég búin að standast allar freistingar til að ráðast á skápana hjá mér og kjammsa á einhverju óhollu (það er að vísu voðalega lítið til í þeim en það er önnur saga). Þetta þýðir samt auðvitað að ég mun bjóða upp á öööööörlítið sælgæti með Despó í kvöld (sorry Katrín, niðurskornar agúrkur og radísur næst!). Svona til að blekkja sjálfan mig og vigtina ætla ég því að dröslast í ræktina núna og hamast á innanlæris-og rassbananum (nei ekki banani heldur bani - þarna dónafólk!) í svona eins og klukkutíma. Kannski að mar smelli nokkrum bekkpressum svona meðan mar er'ahnna!

mánudagur, mars 13, 2006

Vorfuglasöngur

Það er að koma vor. Ég VIL að það komi vor (heyrirðu það Katrín bílrúðuskafari!!). Núna til dæmis sit ég inni og er (ekki) að lesa greinar um frelsi fjölmiðla og heyri þennan líka dýrindisfuglasöng úti. Það að maður heyri fuglasöng er sennilega eitt og sér góðs viti - þeir eru þá amk ekki dauðir úr flensu á meðan. Auk þess skín sólin glatt og hefur gert núna í þrjá heila, samfellda daga. Eina sem drepur (örlítið) stemmninguna er hallæris kuldinn. Hann lætur sig ekki hverfa þrátt fyrir ítrekaðar óskir mínar þar um. Lét mig samt hafa það að labba í skólann í morgun Í PILSI og frostleiðurum (aka nælonsokkabuxum). Ég lifði til að segja frá því svo þetta er allt í áttina.
Annars fór ég í klippingu í dag - hafiði tekið eftir því hvað mar er eitthvað ferskur eftir sollis treatment? and treatment it was! Massaflottur nuddstóll meðan var verið að þvo á manni hárið - naaaa-hæs! I like it, I like it a lot!

laugardagur, mars 11, 2006

Laugardagur til lukku?

Ooooh ég er svo fokking löt. Þarf mjög nauðsynlega að skrifa 3ja blaðsíðna "ritgerð" um spillingu fyrir hádegi á morgun og er svooooooo ekki byrjuð. Langar mest að skríða upp í rúm og fá mér kríu í staðinn.
Í dag er ég búin að éta eina Tuscan múffu frá Espresso House (damn you Katrín fyrir að kynna þær fyrir mér), hamborgara á skoska hálandaborgaranum, diet-kók og lúkufylli af smågodis.
Fær maður hrukkur af því?
p.s. heill sé Huldu Hrönn mágkonu minni sem er þrítug í dag. Til lykke skat!

föstudagur, mars 10, 2006

Harðsperrur og heimska

Ég er með harðsperrur. Í innanlærisvöðvunum (gæti samt verið móðgun við helmassað og köttað fólk að kalla þetta vöðva í mínu tilviki). Uppgötvaði nýtt tæki í gymminu sem gerir mér kleift að lesa meðan ég æfi. (Það sem þessi nýfundna náms-og-hreyfingar-samviska leggur á mig!!)
Sit hérna og grenja yfir Dallas milli þess sem ég les um spillingu í henni Kína. Var agalega stolt af sjálfri mér að hafa dröslast til að koma við á bóksafninu og ljósrita grein sem ég þarf að lesa, komst svo að því þegar heim kom að ég er ekki betri í ljósritun en það að það vantar síðustu 2 - 3 orðin á allar hægri síðurnar (til að spara peninga HEY! og regnskóga hafði ég nebblega minnkað letrið til að tvær síður kæmust á eina). Þetta er til þess að ég neyðist til að giska í eyðurnar því bókasafnið lokar kl. 14 á föstudögum..... DOOOOH!!
Annars var nærri liðið yfir mig þegar ég stóð upp áðan til að ná mér í diet-kók. Mér sýndist augljóst að ég leið fyrir of lágt súkkulaðiinnihald í blóðinu svo ég hljóp út í Kosovo (aka ICA á Delphi) og keypti mér snickers.
Mér líður aðeins betur núna.

fimmtudagur, mars 09, 2006

Mall-ferð

Eftir að hafa dröslast í ræktina fyrir allar aldir og svo á málþing um fjölmiðla og rannsóknarblaðamennsku í Kína fannst mér ég hafa unnið mér inn ferð í mallið með Katrínu. Katrín var reyndar samviskusamari en ég og sótti mig, skutlaði í mallið, tók með mér lunch á Espresso House og fór svo aftur í skólann áður en hún kom að hitta mig kl. 15:00. Haldiði að það sé munur að eiga svona vini :) þvílíkur 'lúchsus' í kuldanum. Reyndar var nettur vorfílingur í manni í dag þar sem mar hjólaði niðrí Gerdahallen kl. 08:45 í glaðasólskini undir heiðskírum himni. Nú bara ER að koma vor. Ég er búin að ákveða það.
Altjént, verslaði smá afmælisgjöf á Hjört Snæ bróðurson minn sem verður tveggja ára í næstu viku. Datt svo inn í TopShop og fann gallapils sem ég er búin að leita að = G L E Ð I ! ! ! ...... þar til ég mátaði það og komst að því að það var tæplega snípsítt. Íhugaði að kaupa það samt, klippa aðeins neðan af því og nota það fyrir belti en ákvað svo að taka ábyrga afstöðu gegn þessum minimalisma í fataefni og sleppti því. (Æi vitiði svo fannst mér líka bara að fyrir 499 SEK ætti ég að amk að fá 3/4 af pilsi, kallið mig níska en þetta er satt.)

miðvikudagur, mars 08, 2006

Tæknisamfélagið

Þetta er mynd af ófæddu barni Jen vinkonu minnar, tekin með svokallaðri 4-D ultra-sound tækni.

Hafiði bara séð magnaðri mynd?

þriðjudagur, mars 07, 2006

Sjálfsvorkunn

oooooooohhhh ég á svo bágt. Ég er hræðilegur kvefsjúklingur. Nálgast karlmann í dramatík og almennri sjálfsvorkunn. Sit hérna og horfi á Oprah þar sem Kirstey Alley er gesturinn og er að tala um offitu.... upplífgandi í ljósi þess að ég hef ekki dröslast í ræktina síðan í síðustu viku. Ætlaði í alvörunni að fara í dag en það spítist svoleiðis vökvinn úr augunum á mér út af þessu kvefi að ég þori ekki að leggjast út af, væri líkleg til að drukkna. (ég meina sko þegar ég leggst út af og tek 200 í bekkpressunni)
Sjitt er kl. orðin hálfþrjú!? verð að lesa - leiter

mánudagur, mars 06, 2006

Vökunótt

Þá er það official - ég er orðin gömul - ég þoli ekki lengur svona vökunætur. Þetta er kannski ágætt að vita svona í ljósi þess að mig hefur soldið verið að langa í annað barn. Ég ákvað að fá smá meinloku í gærkvöldi yfir því hvernig ég ætti að ljúka verkefni sem ég átti að skila í morgun og þar sem svo skemmtilega vildi til að Óskarsverðlaunaafhendingin var einmitt að byrja í beinni á Kanal 5 þá fannst mér snjallræði að horfa "aðeins" á hana meðan ég kláraði verkefnið. Nú ég náttúrulega sogaðist inn í kjólana og glamúrinn og horfði á hana til enda (in my defense kláraði ég verkefnið á meðan) og fór sumsé að sofa um kl. 06 í morgun. Skapið þegar sonur minn ástkær vakti mig kl. hálfátta var eftir því og ég er eiginlega búin að vera hálfónýt í dag.
Sú var tíð að maður gat sleppt svefni án þess að blása úr nös. Uss uss þetta er agalegt!
AAAAAAAAATSJÚÚÚÚÚ - mjér leiðast kvef! (var ég kannski búin að nefna það?)

laugardagur, mars 04, 2006

Kveeeeeb

Ég hata kvef (eða kveeeeeeeb eins og ég get bara borið það fram). Þetta er mest pirrandi ástand sem hægt er að hugsa sér (á svona annars heilbrigðri manneskju sumsé). Þetta kennir manni - dramb er falli næst, rétt búin að sleppa orðinu við hana Gróu um að við höfum bara ekkert orðið veik síðan við komum hingað til Svíaríkis mæðginin. Það var eins og við manninn mælt - morguninn eftir vaknaði ég stútfull af hor og viðbjóði. Líka með verstu tegundina, svona sem leiðir upp í heila og kitlar svo hrikalega að það lekur endalaust úr auganu á mér og ég þarf sífellt að hnerra.
Bara svona til að gera þetta ennþá skemmtilegra hafði ég hugsað mér að kíkja á næturlífið í Lundi í fyrsta sinn í kvöld. En ég læt þetta ekki stöðva mig - ónei - treð mig fulla af einhverjum amerískum-over-the-counter-samt-örugglega-rótsterkur-andskoti-verkjalyfjum og staupa mig svo ofan í það. Skynsamlegt? Kannski ekki. Hef soldið spáð hvað er eiginlega í þessum græna viðbjóði sem kallast NyQuil (en snarslær á einkennin btw). Eitthvað magnað - maður steinrotast af þessu. Eins og Denis Leary sagði svo eftirminnilega um árið "NyQuil! it says on the box may cause drowsiness. What it should say is don't make any fu**ing plans"
Rosalega ætti ég samt að vera heima í kvöld og skrifa um líkurnar á þróun lýðræðis í henni Kína en ég bara neeeeeeee-heeeeeeennnnnnni því ekki og hana nú! (sagði hænan og lagðist á bakið)

föstudagur, mars 03, 2006

Sjálfsstjórn - já eða ekki

Átti í mjög mikilli innri baráttu í barnadeildinni í H&M í dag. Fór til að kaupa afmælisgjöf handa henni Freyju Maríu og átti ekkert smá erfitt með að ákveða mig. Ég fæ nefnilega aldrei tækifæri til að kaupa stelpuföt og mig langaði eiginlega bara soldið að kaupa allt í búðinni (þetta var nú mjög lítil búð). Tók mig svo saman í andlitinu og lét mér nægja að kaupa einn bol. Ekki þó án þess að taka einn rúnt í dömudeildinni og æfa mig í sjálfstjórn. Sjálfið lét að stjórn og ég keypti ekki neitt. Ég er í sjálfskipuðu banni frá bæði H&M OG Ginu um óákveðinn tíma.
---- ---- ---- ----
Nú er fjórum tímum seinna og við Egill komin úr afmælinu þar sem undirrituð át að sjálfsögðu á sig gat (vottaði ekki fyrir sjálfstjórninni þar) og er í þokkabót að fara til Katrínar að horfa á Let's Dance og borða B B Q kjúkling. Held það verði meira svona nart - nei! bíddu ég finn smá hólf vera að opnast hérna alveg upp við þindina...... jahú!
farin annars
p.s. er komið úr tísku að commenta?

fimmtudagur, mars 02, 2006

Back to business

Þá er heimsóknin á enda og hversdagsleikinn tekur við á morgun. Fylgdi Gróu út á Kastrup áðan, alltaf stuð að taka lestina yfir sundið. Lét undan suði og tuði afkvæmisins og borðaði á Burger King eitthvað sem var selt sem kjúklingaborgari en ef innihaldið átti eitthvað skylt við kjúkling í meira en 8 ættlið hefur eitthvað stórkostlegt gerst í ræktun alifugla sl. ár. Þvílíkur viiiii-hiiiiiðbjóður.
Ræktin á morgun - BIG TIME!!

miðvikudagur, mars 01, 2006

Hausverkur

Ææææi hvenær kemur vooooooooooooor?! Ég er með hausverk af öllum þessum snjó. Hann er of hvítur OG kaldur.
1. mars í dag - ótrúlegt hvað janúar og febrúar (sem eru btw minnst uppáhaldsmánuðirnir mínir af árinu) líða alltaf hratt. Þeir eru bara alltaf einhvern veginn búnir. Finnst ykkur það ekki? Reyndar finnst mér tíminn almennt líða hræðilega hratt á þessari gervihnattaöld. Barnið mitt er sko að verða 5 ára í sumar - 5 ÁRA!! Hann er nýfæddur þessi trítill og núna er hann að fara að byrja í skóla í haust. Hvar enda þessi ósköp?
Ég er farin að sofa....
Free counter and web stats