laugardagur, apríl 29, 2006

Óskhyggja

Ég er að fá ímugust á Kína ég segi það satt. Af hverju þarf þetta samfélag að vera svona fokking flókið? Spáið í því ef ég vaknaði á morgun og *PÚFF* öll samfélagsleg vandamál landsins hefðu verið með töfrum leyst, bara sísvona! - þeir myndu þurfa að aflýsa prófinu sem ég er að taka.... aaaaah sweet!
Annars er ég nú búin með spurningu eitt, at least that's something. Verra að ég er engu andsk... nær um hvernig ég á að snúa mér í þeirri þriðju - þeirri opnu og ósömdu. (nr. tvö er kökubiti sko).
Í tilefni þess að ég kláraði þá fyrstu - þá sem ég var grenjandi yfir í gær - horfði ég á voða sæta bíómynd sem heitir því skemmtilega nafni Elizabethtown. Mæli með henni. Ofsalega hugljúf og skemmtileg saga um lífið og tilveruna. Ekki einn einasti bíll sprengdur í tætlur og ekki einn einasti nakinn kvenmannskroppur látin skoppa yfir skjáinn. Góð tilbreyting það.

föstudagur, apríl 28, 2006

Viðsnúningur

Það er svo gaman að því þegar vonlaus staða umbreytist í góða stöðu án þess að maður geri eiginlega nokkuð til að hafa áhrif á það. Í morgun var ég - literally - grenjandi af frústrasjón yfir því sem mér fannst bara fáránlega yfirgripsmikil og erfið prófspurning. Ég var sko í alvörunni að íhuga að skila ekki #$%#)/%" prófinu og taka bara sjúkrapróf. ENNNN svo talaði ég aðeins við hana Katrínu sætu og góðu sem hvatti mig nú til að fara að tala við kennarann sem ég gerði (þar sem ég var nú einu sinni stödd niðrí skóla) og það barasta breytti öllu. Ekki bara sýn minni á spurninguna sem ég var (big surprise surprise) að flækja alltof mikið fyrir mér heldur viðhorfi mínu til prófsins í heild. Þetta hefur virkað svona líka glimrandi vel að það svoleiðis spítast upp hjá mér síðurnar og allt lítur út fyrir að ég nái að klára þetta drasl fyrir skil..... og það þrátt fyrir að ég hafi tjillað aðeins í bænum með Katrínu í hádeginu Í SÓLINNI!!!
... ég áskil mér þó rétt til að væla, kvarta og kveina þegar ég byrja á spurningu 3 sem er svo skemmtileg að vera á þá leið að mar á að semja hana sjálfur. HVAÐ ER ÞAÐ?
p.s. keypti mér ekki eitt heldur TVENN pör af skóm í dag - það gerir daginn 'by definition' betri en aðra daga :)

fimmtudagur, apríl 27, 2006

Löt latari lötust

Nenn'essu eggi sko! Engan veginn barasta. En ég 'brought this on myself' það er víst ekki hægt að þræta fyrir það. Til að komast hjá lærdómi er ég í dag búin að:
* Þvo 8 fullar vélar af þvotti (og brjóta saman og og og þið vitið)
* Hanga 2 tíma á netinu að taka sjálfspróf í hinu og þessu
* Kjafta við hana Maj-Britt mína á MSN
* Lesa ALLAR fréttir á mbl.is - þrisvar
* Borða ógrynnin öll af sælgæti - (djö... er Nóakropp gott)
* "Svæfa" son minn (sem er ennþá vakandi frammi í stofu)
* Blogga
* Tala við Sif á MSN (og heyra fyndna kjaftasögu um sjálfa mig)
* Pirra mig á grátlegri stöðu a) íslensku krónunnar og b) bankareikningsins míns
* Tala í símann
* Velta fyrir mér tilgangi lífsins
* Flokka föt til að gefa í Rauða Krossinn
* Blóta sjálfri mér fyrir að hafa ekki drullast í eróbikk
* .....
nei, held þetta sé komið bara

miðvikudagur, apríl 26, 2006

Ég elska ....

svona próf, EKKI skólapróf eins og þetta sem ég Á að vera að leysa en ER ekki að gera. Heldur svona fyndin "who are you most like on Wisteria Lane (sem er Edie Britt by the way) eða á annan hátt "silly" próf. Í kvöld tók ég til dæmis þetta persónuleikapróf hvers útkoma kom mér mjög á óvart og er nánast þvert á niðurstöður slíks prófs sem ég tók þegar ég bauð mig fram sem tilraunadýr fyrir graduate nema í sálfræðideild Lundarháskóla í nóvember.
Annars setti Maja pæja þetta http://kevan.org/johari?name=Lundarstelpan sniðuga dæmi á heimasíðuna sína í gær og mér finnst því tilvalið að testa hvað YKKUR finnst passa best við MIG. Common - be honest!
Fyrir þá sem vilja 'testa' hamingjustig sitt má prófa þetta hérna
GóÐa SKeMMtUN

Tvennt

Það er tvennt sem ég á erfitt með að átta mig almennilega á hérna í Svíaríki.
a) hvernig sænskar konur geta breyst úr MEGABEIBUM um tvítugt í ARFAILLA TILHAFÐAR ÞREYTTAR HÚSMÆÐUR um fertugt
b) skótískunni á (ungu) sænsku kvenfólki
Hið fyrrnefnda er mjög sérstakt. Því sænskar stelpur eru sannarlega mjög meðvitaðar um tísku og útlit + þær eru mjög sætar, amk stúdínurnar hérna í háskólabænum Lundi. En svo fer maður niðrí bæ og mætir svo þreyttum húsmæðrum með barnavagna (oftast þó tvíburakerrur með einu ca. 2ja ára og einu nýfæddu) sem eru gráhærðar í velúrdressum. Í byrjun dró ég yfirleitt þá ályktun að þetta hlytu auðvitað að vera ömmur þessara blessuðu barna en staðreyndin er sú að þetta eru mæðurnar. Hvernig getur þetta transition átt sér stað á minna en 20 árum?
Hið síðarnefnda er nú ekkert minna en kosmískt undur. Lundur er fullur af skóbúðum sem allar selja sama skóinn. Literally sko, og hann er ótrúlega ljótur. Ég bara skil þetta ekki. Gvuð hefur verið búin með kvótann þegar Svíum var úthlutaður skósmekkur. Getur ekki annað verið. Auðvitað er alveg hægt að fá flotta skó hérna, og sérstaklega stígvéli en af einhverjum ástæðum kjósa þessar stúlkukindur ekki að kaupa þá (þau). Ég þarf eitthvað aðeins að fara yfir þetta með þeim þessum elskum.

þriðjudagur, apríl 25, 2006

Öfugsnúið ?

Mér reiknast það til að ég fái mánaðarlega hærri upphæð í 'styrki' frá sænska ríkinu en ég fæ í námslán frá mínu eigin.
Er ekki eitthvað öfugsnúið við það?

mánudagur, apríl 24, 2006

Molla

Já það er eiginlega bara hægt að nota þetta orð yfir veðurfarið í Lundi í dag. Dásamlegt. Ég fór út á sandölum og pilsi og þunnri peysu og var ekkert kalt.... og mér er ALLTAF kalt. Tjill annars í gangi, nenn'ekki að byrja á prófaviðbjóðnum sem ég fékk fyrir helgi. Ég sver það er þetta þess virði ég bara spyr!
MA gráða SMJEMMA gráða.................oooooooooooooohhhhhhhhhh

laugardagur, apríl 22, 2006

Sumar sumar

Jæja loksins er farið að spá almennilega hérna í þessu landi. Næsta vika á að vera ljú-húf með hitastig í kringum 20 um miðja vikuna. AUÐVITAÐ - AUÐVITAÐ er þetta samt vikan sem ég verð innilokuð að skrifa $%#%@)(% prófið í Kína-kúrsinum. Dauði og djöf.... þetta próf sko og er ekki að sjá að það gagnist mér rassgat að hafa skrifað 8 ritgerðir, gert tvær kynningar og eina book-report í þessu drasli.


Mjér leiðast próf!

- Fýlustrumpur

föstudagur, apríl 21, 2006

Hamingjan

Á hverjum degi vakna ég við hlið þér og hugsa,

þarna er hún lifandi komin,


hamingjan!

- Ingibjörg Haralds (1942- )

Þetta er uppáhaldsljóðið mitt, It feels like love should be, finnst ykkur það ekki?

fimmtudagur, apríl 20, 2006

Kommentafokk

Ok er að fokka upp þessu kommentadæmi BIG TIME... alltaf þegar eitthvað á að vera ofsalega auðvelt þá er það bara alls ekki þannig.... þangað til þetta kemst í lag verðið þið bara að halda í ykkur með commentin (sem verður erfitt í ljósi yfirþyrmandi fjölda þeirra upp á síðkastið)


7 klst. síðar


jæja ég henti þessu Haloscan drasli út - þetta var bara ekki að virka fyrir mig. Þið verið að láta ykkur blogger comments að góðu verða kæru lesendur.

20. apríl

Er ekki rétt að byrja á því að óska Íslendingum nær og fjær gleðilegs sumars? Lifandi sönnun hörku og framsýni Íslendinga að okkur skuli hafa dottið í hug að halda sumardaginn fyrsta í A P R Í L. Snarbiluð þjóð!
En að öðru. Ég er afleitur 'sörfari' og hef alltaf verið. Mogginn-bloggið-skólinn-pósturinn-netbankinn-blogg vinanna and that's fucking it. En ÖÖÖÖÖRsjaldan kemur það fyrir að ég villist inn á barnalands- og bloggsíður ókunnugra og þá rekst ég stundum á soldið skemmtilega hluti eins og þessar mjög gagnlegu upplýsingar um sundtækni sæðisfruma. Alltaf lærir maður eitthvað nýtt.
Annars er fæðingardagur Hitlers í dag - 20. apríl - er skrítið að ég skuli vita þetta? Eða er það bara vitnisburður um yfirnáttúrulega getu mína til að leggja á minnið vita gagnslausar upplýsingar eins og þessar hérna - Tonight's the night með 'Stauti Stefáns'- er mitt lag. Hvað er þitt? (ATH! verðið að vera súperfljót að smella á mánuðinn ykkar því síðan re-routar mann inn á eitthvað ennþá gagnslausara - ó sé það núna, þessari síðu hefur verið lokað vegna höfundaréttarlaga - en það er samt hægt - bara að vera skjótari en skugginn að skjóta)

miðvikudagur, apríl 19, 2006

Ó að vera aumur námsmaður

... með 'tekjur' í íslenskum krónum. Nú hætti ég nú bara að athuga gengið, það er bara deprimerandi. Þegar ég flutti út í ágúst sl. þá borgaði ég sem samsvarar 39.000 ISK í húsaleigu á mánuði sú tala er núna komin í 49.000 ISK sem eins og glöggir menn sjá er hækkun upp á 10.000 kr. Á MÁNUÐI!!!! En það er hækkun upp á hvorki meira né minna en 14.000 ISK frá því í nóvember þegar gengið var sem lægst. Þetta er náttúrulega ennþá meira nammi í ljósi þess að framfærslan mín frá LÍN (og þar með yfirdrátturinn á námsmannareikningunum) er reiknaður á genginu 8 - þannig að þetta er T Ó M (í orðsins fyllstu) hamingja.
Annars er dásamlega fallegur dagur og því varla annað hægt en að vera með sól í sinni. Svo getur maður varla kvartað meðan maður á mat í ísskápnum og föt utan á sig... margur á minna og kvartar ekki. :)

þriðjudagur, apríl 18, 2006

Self-portrait


Ég fékk mér nýja myndavél um daginn, gerði agalega góð kaup að mér fannst, réð mér ekki fyrir kæti þegar ég dröslaði gripnum heim. Núna er ég samt eiginlega búin að tapa soldið gleðinni yfir kaupunum - hún er svo lengi að taka myndina að 'kodak mómentið' er þokkalega liðið áður en hún smellir af = 'gleited'
MajBritt vinkona mín er snillingur í sjálfsmyndatöku með svona digital kamerum, og ég á þær nokkrar því til sönnunar (sko myndir ekki kamerur). Ég hins vegar sýg í þessu og enda yfirleitt eins og eitthvað zombie eða viðriðni með annarlegan svip á andlitinu - hence nýjasta tilraunin hérna til hliðar. (nema hún myndist yfirleitt bara svona vel og ég ekki - það er reyndar ekki ólíklegt)

Áii

hvað 'Baywatch' eru vondir þættir - man einhver eftir þeim? Hallelúja - er að horfa á aflitaða, uppstoppaða Pamelu Anderson gráta yfir einhverju break-upi.
Eins og vitur maður sagði eitt sinn:
Ef skítur væri orkugjafi gæti Hollywood framleitt nóg af henni til að knýja heiminn vel inn í næsta árþúsund.
Ég er farin að sofa -

mánudagur, apríl 17, 2006

Sjálfsvalin "kvöl og pína"

Merkilegt nokk að manni geti fundist svona leiðinlegt að gera það sem maður valdi sér sjálfur að leggja fyrir sig - algjörlega ótilneyddur og er í þokkabók skv. öllum eðlilegum viðmiðum forréttindamanneskja að hafa möguleika á. Ójú ég er einmitt að vísa til þessa blessaða náms míns. Á morgun á ég sko að skila fyrstu drögum að rannsóknaráætlun fyrir mastersverkefnið mitt og núna þegar kl. er 23:01 og ég er ekki búin að skrifa eitt einasta stakt aukatekið orð.
Er bara í ruglinu sko !

sunnudagur, apríl 16, 2006

-- Gleðilega Páskahátíð --
Segjanda er allt sínum vin (úr Egilssögu) kom úr páskaegginu mínu í morgun. Það er nú nokkuð til í því ekki satt? Annars át ég bara innan úr egginu sem stendur óhreyft inn í ísskáp og sýndi þar fádæma sjálfsstjórn sem var samt bara engin sjálfsstjórn því mig langaði einfaldlega ekkert í það. Fyndið hvernig þetta læðist aftan að manni svona í blóma lífsins ..... ha!
En ég tók mig nú saman í andlitinu og borðaði yfir mig af ljúffengum svínalundum í gráðostasósu hjá Billu og Sigga - nammi namm og súkkulaðiís með Snickers sósu í eftirmat. Getur ekki klikkað. Kærar þakkir fyrir okkur fjölskyldan á 11 O :)
En það er nú við hæfi að ég ljúki deginum með að skoða stöðu kristninnar í Kína - er þa'kki?
Góðar stundir !

laugardagur, apríl 15, 2006

Fyrsti í sólbaði

Egill Orri og Leó Ernir í Stadsparken

Við Katrín erum sammála um að hann hafi sumsé verið í dag (að vísu bara ef maður var í gallabuxum og hettupeysu í vatteruðu vesti). Eftir afleitt veður í gær þá var yndislegt veður í dag og við fórum með strákana í Stadsparken sem er risastór 'hljómskálagarður' hérna niðri í bæ og þar er aldeilis hægt að 'tjilla' og leyfa strákunum að leika sér á róluvellinum á meðan. Við Katrín tókum bara með okkur teppi og lögðumst í sólina = Naaa-hæs.

Nú svo fyrst við vorum byrjaðar í sumarstemmningunni þá bara bættum við um betur og grilluðum í 9-unni og vorum rétt búin að kveikja í grillinu þegar Siggi, Billa og börn röltu framhjá og þau joinuðu okkur bara og krakkarnir léku sér á meðan. Við vorum heldur vel klædd í dag en ákváðum að í næsta grilli ætluðum við að geta verið aðeins léttklæddari og svo koll af kolli. Stefnum að því að grilla á g-streng í lok maí :) :) :) :)

Siggi sýndi Leó, Sindra og Katrínu listir sínar.... meðan Valdís og Egill Orri skelltu sér í rólurnar

fimmtudagur, apríl 13, 2006

Júróvisjón nördar

Svíar láta ekki að sér hæða þegar það kemur að Júróvisjón, en þeir taka keppnina (sem og forkeppnina hérna 'heima') mjög mjög alvarlega. Siggi nágranni minn spáði því hérna í kvöld að Carola kæmist ekki upp úr 'umspilinu' og það brytust út óeirðir í Svíþjóð í kjölfarið en greyið maðurinn sem ber ábyrgð á því að Svíþjóð er í títt nefndu 'umspili' hefur ekki sést í Svíþjóð síðan í maí í fyrra og þegar síðast fréttist var hann að sækja um pólitískt hæli í Úkraínu ( fyrsta mál sinnar tegundar þar í landi).
En fullyrðingu minni til sönnunar þá var ég í eróbikktíma í morgun þar sem 'Evighet' var að sjálfsögðu spilað og það ekki einu sinni heldur tvisvar og til að bæta um betur ... í röð sko. Enn merkilegra er eiginlega að á 'topp tíu' listanum hérna í Svíþjóð eru 8 lög úr nýliðinni forkeppni.

Dásamlegt!

miðvikudagur, apríl 12, 2006

Gengismál

Jæja sænska krónan er komin í 9,8 og það er því formlega hætt að vera gaman (fjárhagslega) að vera námsmaður í (sænskum) útlöndum. Til dæmis er leigan á íbúðinni minni núna 46.864 en í nóvember (þegar krónan var sem lægst) borgaði ég 34.105 kr. Það munar um 12.700 kall þegar maur á skv. LÍN að vera að lifa á ca. 55.000 kalli á mánuði. Það væri nú í lagi ef maður væri með tekjur í SEK - þá væri lífið ljúft en námslánalífið er ekki eins djúsi.
Annars er allt gott sko. Skánn getur að vísu ekki ákveðið sig hvort það er komið vor eða ekki. Soldið svona pínu pirrandi að geta ekki treyst á að það hangi þurrt - heyra mig tala - eins og Ísland hafi einhvern tíma verið land hins stabíla veðurfars.
Annars nálgast páskarnir eins og óðfluga og ég setti upp smá páskaskraut í tilefni þess í gær. Agalega huggulegt finnst ykkur ekki? Gerist vart sænskara en þetta.
Það er í alvörunni mjög sætt, þessi mynd er ekki 'doing it justice'

þriðjudagur, apríl 11, 2006

Æ æ ... ÚPPS

Rosalega held ég að granni minn í íbúð 301 hafi ekki verið hress með mig í morgun. Ég er nefnilega soldið svona utan við mig stundum (alveg satt) og í morgun var engin undantekning þegar ég dröslaði ca. 20 kg. af óhreinum þvotti niður í þvottahús og skellti í þrjár vélarnar mínar áður en ég fór með Egil á leikskólann. En æ æ þvottatíminn minn var þá á morgun kl. 9. Þetta uppgötvaði ég þegar ég kom niður að taka úr vélunum kl. að verða 10. Þá beið allur þvotturinn minn eftir mér reeeeeennnandi blautur - enda átti sá sem actually átti þvottahúsið fullan rétt á því að fjarlægja hann úr vélunum. Nú manni hefnist - reynið þið að draga það sem voru 20 kg af þurrum þvotti rennandi blautan á eftir ykkur upp 2 stiga. ÚFF aldrei verið fegnari að vera á jarðhæð og það sem næst þvottahúsinu.
p.s. smá 'trít' fyir júróvisjónfíkla - hér má sjá sænska framlagið í ár með hinum mikla júróvisjónreynslubolta þeirra Svía (og æskuidolinu mínu) henni Carolu (var sko að því komin að kaupa mér svona dress en fannst það eiginlega ekki virka án vindvélarinnar sem var of dýr). Mér fannst eiginlega lag nr. 4 með the Poodles best en viðurkenni að finnast sigurlagið alveg ágætt líka (í svona keppni).
Bæði slá allavegna rúmlega við hinu hræðilega framlagi Íslendinga í ár - Heja Sverige ! segi ég nú bara

mánudagur, apríl 10, 2006

Ég er nú ekki hægt

Ég sver það nú verð ég bara að hætta að svara í símann þegar símanúmer sem ég þekki ekki eru að hringja. Ég er nokkuð viss um að ég hafi óvart gerst áskrifandi að kristalsglösum rétt í þessu. Það bætist þá við nærbuxnaáskriftina sem ég hélt mig hafa skráð mig fyrir í kringum 20. febrúar. Þær hafa að vísu ekki látið á sér kræla en þegar haft er í huga að þetta er nú eftir allt Svíþjóð þá er 7 vikna biðtími náttúrulega fullkomnlega eðlilegur.
En svona í alvörunni - mér er ekki sjálfrátt - það er greinilegt. Nei takk! þetta er ekkert flókið sko, NEI TAKK ég vil ekki gerast áskrifandi að tékkneskum kristallsglösum.
Sko, þetta var ekkert erfitt.

Hef sagt það áður ....

... og segi það enn


***
Hlutirnar hafa afgerandi tilhneigingu til að reddast
***

sunnudagur, apríl 09, 2006

Dagurinn minn

Vakna, pissa, borða, krakkaleikfimi, Espresso House, bókasafn, videoleiga, hraðbanki, lærdómur, pizza, videogláp, nammiát, lærdómur

- í þessari röð.

Hvernig var svo ykkar dagur?

laugardagur, apríl 08, 2006

Matarboð

Montse (Spánn), Ég og Mimmi (Finnland)
Á fimmtudagskvöldið átti ég afar skemmtilegt kvöld með nokkrum stelpum úr bekknum mínum. Bauð þeim í mat hérna á Kjemmann sem heppnaðist bara alveg hreint ofsalega vel. Ég áttaði mig á því að ég hef aldrei áður haft fólk af eins mörgum þjóðernum í einu inni á heimilinu mínu. Við vorum 7 frá jafnmörgum mismunandi löndum. Maturinn var (þó ég segi sjálf frá) mjög góður og félagskapurinn enn betri en highlight kvöldsins var þó án efa þegar Evelyn trúði ekki að ég væri að verða þrítug, hélt að ég væri jafngömul sér eða fædd árið 1981!!
Bless your heart Evelyn - you made my week! : )

F.v. Evelyn (Austurríki), Dee (Írland), Kamila (Pólland) og Li Lian (Malasía)

fimmtudagur, apríl 06, 2006

Systembolaget...

...er hið sænska 'Ríki' og þangað lagði ég leið mína í dag þar sem ég er að fá 6 limafagrar sprundir í mat til mín í kvöld. Nú hef ég hvorki eytt miklum tíma né fé í þessari ágætu búð hingað til (SHOCKING ... I know!) en í þetta sinn keypti ég nákvæmlega 4 x 1/2 l. dósir af Carlsberg .... sennilega besta bjór í heimi og 3 lítra 'belju' af hvítvíni. Þetta er ekki í frásögur færandi nema fyrir þær sakir einar að af einhverjum með öllu óskiljanlegum ástæðum eru pokarnir (sem maður þarf að sjálfsögðu að kaupa - tänk på miljön) ca. 1/4 af stærð venjulegs innkaupapoka. Þetta þýðir með öðrum orðum að það kemst sjé a (c.a.) 1 og hálfur bjór í hvern poka.
WHATTA FU** skillurru? Getur þetta nú talist umhverfisvænt? - að þurfa 4 poka til að bera heim kippu af bjór.
Ég er að segja ykkur það - það hefur einhvern tíma í fyrndinni einhver sænskur social pedagok 'with nothing better to do' reiknað út að minni pokastærð dragi úr áfengiskaupum og hence drykkju og þar við situr.
Saga dagsins var í boði Vímuvarnaráðs.

miðvikudagur, apríl 05, 2006

Ég er ...

of þreytt til að vera kreatív í skrifum í dag. Datt í hug að deila þess í stað með ykkur smá tilvitnun úr bók sem ég var að klára að lesa um daginn. Hún heitir 'A Mother's ordeal' og er ævisaga konu sem ólst upp í Kína Maós. Verið er að vísa til einnar mestu hungursneyðar mannkynssögunnar sem átti sér í stað í kjölfar - The Great Leap Forward - sem var áætlun sem Mao setti á fót á sjötta áratug síðustu aldar og átti að fleyta Kína framúr Bretum í stálframleiðslu og þar með leggja grunn að stórkostlegri iðnvæðingu landsins. Getgátur fræðimanna gera ráð fyrir að um á milli 42 og 46 milljónir manna hafi látist í kjölfar hungursneyðar á ca. 5 ára tímabili
“A peasant woman, unable to stand the incessant crying for food of her two-year-old daughter, and perhaps thinking to end her suffering, had strangled her. She had given the girl’s body to her husband asking him to bury it. Instead, out of his mind with hunger, he had put the body into the cooking pot with what little food they had foraged. He had forced his wife to eat a bowl of the resulting stew.” (p. 39)
setur hlutina óneitanlega soldið í samhengi ekki satt? Þetta gerðist árið 1962! (það eru innan við 50 ár síðan)

þriðjudagur, apríl 04, 2006

Glataðir gellutaktar

Sú var tíð, þegar ég var (þ)yngri að ég gat þrammað á 8-10 cm hælum heilu dagana án þess að verða þreytt. Þetta er hæfileiki sem ég hef, eftir 8 mánuði á flötustu flatbotnum, greinilega glatað með öllu. Máli mínu til stuðnings sit ég hérna eftir að hafa þrammað um bæinn í svörtu stígvélunum mínum í 3 klukkutíma og íhuga alvarlega að láta 'ampútera' við ökkla. ÁÁÁÁiiiii!
Annars sýndi ég fádæma sjálfsstjórn í dag þegar ég fór í El-giganten (lesist ELKO á íslensku) og fór EKKI í Nova Lund í leiðinni (sem ég þarf þó að labba framhjá á leiðinni í strætó). Líkurnar á því að þetta gerist eru af tryggingastærðfræðingum gefnar upp sem 1:1 000 000 (einn-á-móti-milljón) svo þið eruð að verða vitni að tímamótaviðburði hérna lömbin mín. Til að bæta við undrið þá er ég svo gott sem búin með ritgerðina sem ég þarf að skila í fyrramálið - hvar endar þessi taumlausa gleði?

mánudagur, apríl 03, 2006

Rainy days and Mondays ....

Í dag var meira að segja hvort tveggja. Sérlega gaman þegar maður er ekki búin að drullast til að láta gera við hjólið sitt - vaðandi í þeim misskilningi og sjálfsblekkingu að ég myndi gera það sjálf sko - og er þess vegna labbandi. En núna þegar ég skrifa þetta sé ég reyndar að ég hef ekkert efni á að kvarta, labbaði eiginlega bara í skólann í morgun, fékk svo far í ræktina, tók strætó heim þaðan og fékk far með Billu í og úr íþróttaskólanum. Kviðdómurinn er því beðinn að hafa síðustu athugasemdir pistlahöfundar að engu.
Ligg með öðru á netinu að skoða fullt af alls konar flugförum til m.a. Íslands, Kína, Köben og Madridar. Reiknast það til að þegar allt er talið muni ég eyða tæplega 200 þús í flugfargjöld á næstu vikum. Það er doldið svona mikið þegar maður á enga peninga.

sunnudagur, apríl 02, 2006

Oj oj ullabjakk

Ég varð vitni að mjög svo ógeðfelldri sjón fyrir utan ræktina í dag. Maður nokkur sem hélt greinilega að það væri 1973 (og líka að hann væri jafn spengilegur og þá) kom aðvífandi í þeim stystu stuttbuxum sem ég hef séð. Það var reyndar léttir þegar hann steig af hjólinu og ég sá að það voru actually buxur þarna - því á hjólinu höfðu þær skriðið way up into the unknown - svo maður gat bara hreint ekki verið viss.
Bjakk! Má þetta?

laugardagur, apríl 01, 2006

Menningarviti

Tók sænska mynd á videoleigunni í dag, agalega 'menningarleg'. Tjenare Kungen heitir hún og fjallar um 'ströggling' stelpuband í Svíþjóð í kringum 1982. Judge is still out on this one en þetta er verðlaunamynd.
Sit annars afvelta - what else is new? - eftir afmæli hjá Billu og Sigga (eða Valdísi öllu heldur) þar sem boðið var upp á pizzu og íslenskt nóakropp með kaffinu - juuuuuu minn þvílík hamingja.
Free counter and web stats