þriðjudagur, febrúar 28, 2006

Þeir sletta skyrinu sem eiga það

Rosalega er hrært skyr með rjóma gott. Eiginlega bara fáránlega gott, tala nú ekki um ef það er borið fram með Geirarúgbrauði og smjöri (juuuuu það þarf svo lítið til að gera mig happy).
---- ---- ---- ---- ---- ----
Voðalega eitthvað andlaus í dag. Netbankinn minn ennþá harðlæstur (sem er kannski ágætt ég slepp þá við að gráta yfir stöðunni á reikningunum mínum á meðan). Annars sýndi ég fram úr hófi sjálfstjórn í dag í ferð til Köben þar sem ég keypti EKKI NEITT - that's right folks. Fór meira að segja í bæði Vero Moda og tvær skóbúðir en kjaupti ekkert - Brrrr hvað ég er að verða komin með rúmlega nóg af þessum kulda annars, snjóaði nánast niður á Strikinu í dag, flúðum á endanum í Field's þar sem ég týndi öðrum vettlingnum mínum. Þetta varð til þess að ég er kalin á annarri hendinni. Er að nota góðu hendina til að skoða gervihandleggjaúrval Özzurar á netinu. Ég held ég hafi verið skógarbjörn í fyrra lífi. Nokkuð viss um að mér er ætlað að leggjast í híði fljótlega eftir afmælið mitt og sofa fram að páskum.

mánudagur, febrúar 27, 2006

Klúður

F O K K !

.... man ekki lykilorðið að heimabankanum mínum


Ég er nú bara ekki hægt sko!

sunnudagur, febrúar 26, 2006

Misskilningur

Ég var spurð að því í dag hvort ég væri að fara að gifta mig. Ég hváði og skildi ekki hvaðan fólk gat hafa fengið þá flugu í höfuðið. Nei ég sá að þú varst að fá tilvonandi tengdamóður þína í heimsókn var svarið. Svona verður misskilningur til. Það sem ég hafði sumsé skrifað hérna á bloggið (ef fólk læsi nú meira en annað hvert orð) var að ég ætti von á fyrrverandi-tilvonandi tengdamóður minni í heimsókn. Hún var sumsé einu sinni tilvonandi en er núna fyrrverandi tilvonandi. Kannski fólki finnist þetta ruglingslegt en frasinn er komin frá henni móður minni og mér hefur alltaf fundist hann lýsa sambandi okkar Gróu nokkuð vel. Fannst rétt að skýra þetta betur áður en sú frétt færi sem eldur í sínu um bloggheima (sem og aðra) að hún Sigrún væri bara gengin út (loksins!!) he he he he
---- ---- ---- ---- ---- ---- ----
Annars fór ég til Malmö í dag og rölti þar um og rúntaði. Keypti mér (alveg óvart) obbosslega fín dökkbrún leðurstígvél. Sá á þeim að þau langaði alveg óskaplega á fæturna á mér svo ég ættleiddi þau.
---- ---- ---- ---- ---- ---- ----
Alvara lífsins á morgun þegar ég byrja í aðalvalkúrsinum mínum um hana Kína. Dáldið svona kreisí tími framundan sýnist mér en that's what I'm here for (eða ég held það, eða var það búðirnar?! Æi ég man þetta aldrei)

laugardagur, febrúar 25, 2006

Laugardagsrúntur

Jæja þá er mar nú aldeilis búin að fá fyrir peninginn í dag. Við Gróa brugðum undir okkur betri fætinum og skelltum okkur í Höganäs í dag og var verslað aðeins upp í stellið góða. Þegar þangað kom vildi svo skemmtilega til að það var 20% afsláttur á öllu í búðinni og þar að auki 50% afsláttur af öllum mótum, formum, fötum og stærri skálum svo míns gerði náttlega dúndurkaup á þessu öllu og er nú að nálgast það að geta skammlaust boðið fólki í mat einhvern tíma þegar ég verð stór og hef efni á borðstofuborði sem rúmar þetta allt saman.
Nú svo var Helsingborg tekin í bakaleiðinni og við skelltum okkur yfir sundið til Helsingör sem var bara rosagaman. Rosalega kalt að vísu og lítið líf þar sem allar búðir loka kl. 14:00 á laugardögum og göngugatan var því frekar draugaleg. En við fengum okkur gott að borða og einn öl ([berist fram [uuuuul]) og gerðum bara gott úr þessu. Þannig að þetta var bara rosafínn dagur og núna á að skella sér í bíó með henni Katrínu Rós á tvo sæta hommakúreka sem fella hugi saman.
leiter ....

föstudagur, febrúar 24, 2006

Grannarnir

Í íbúðinni við hliðina á mér búa tveir strákar. Hvort þeir eru par eða ekki er mér ekki ljóst en hvað sem því líður eiga þeir amk einn kött. Hann er feitur og svartur og liggur gjarnan fyrir utan dyrnar og fylgist með því sem gerist í hverfinu. Nema hvað í gær þegar ég var að koma heim þá vildi þannig til að annar nágranni minn var að labba inn í sömu andrá. Kötturinn var fyrir utan eins og venjulega og rétt í þann mund sem ég loka á eftir mér hurðinni heyri ég strákinn vera að tala við köttinn. Juuuu minn ég fór nú bara hjá mér. Ég hef átt elskhuga sem ég hef talað við af minni ástúð en þessi gaur talaði við köttinn. Mér hafa alltaf fundist kattareigendur "by definition" aðeins undarlegri en annað fólk en þetta tók nú alveg steininn úr......
---- ---- ---- ---- ---- ----
Míns er búin að vera ofsalega dugleg að klára að þrífa íbúðina í dag. Undirbúa komu elskulegrar (fyrrverandi-tilvonandi tengdamóður minnar hennar) Halldóru Gróu. Hún kemur með síðdegisvélinni í dag og Egill Orri er að vonum roooooosalega spenntur. Grunar jafnvel að hún færi okkur eitthvað góðgæti að heiman. Það væri þá ekki í fyrsta skipti sem hún kemur færandi hendi þessi elska.
Við þrifin fékk ég staðfestingu á því sem mig hefur lengi grunað, ég er hreint ótrúlega rafmagnaður persónuleiki, amk er rykframleiðslan í þessari íbúð laaaaaaaaaaaaa-haaaangt frá því að vera eðlileg.
Gleði gleði gleði - gleði líf mitt er.

fimmtudagur, febrúar 23, 2006

Allt á floti alls staðar?

Jæja byrjar talið um harkalega lendingu íslenska efnahagslífsins - krónan að (byrja ) hrynja og allt í pati. Það er náttúrulega ekki mjög gott þegar morgunblöð nágrannalandanna eru með stríðsfyrirsagnir þess efnis að íslenskt efnahagslíf sé á leiðinni í klósettið, hjálpar ekki sko. Fæðir bara inn í æsinginn þar til allir fara að trúa því og fara svo að haga sér í samræmi við það.
Það var lygi ef ég segði að mér fyndust þetta góðar fréttar fyrir svona námsmenn sem ætla someday, oneday að flytja aftur á klakann og perferably fá vinnu!! Kannski maður taki bara eighties á þetta og verði hérna áfram á sænska "sósjalnum". Örugglega betra að vera á "sósjalnum" hér en heima ..... he he he
Nei nei þetta er nú uppgerðarhógværð í mér - auðvitað fæ ég vinnu - hver myndi ekki vilja ráða mig?! (ATH! that is a rhetorical question)
En það er gleði gleði gleði í dag því að ég kláraði í gær (heilum 34 klukkustundum fyrir deadline sko) prófið í aðferðarfræðinni og er því FRJÁLS eins og fuglinn til að gera það sem mig lystir í dag. Þetta þýðir með öðrum orðum að ég ætla að skúra og þrífa og fara í ræktina
MAN! I am living on the edge ! True story.

miðvikudagur, febrúar 22, 2006

Þrældómur

Ég er þræll upplýsingasamfélagsins. Var internetsambandslaus í 4 klukkustundir í morgun og ég var með innilokunarkennd og andarteppu allan tímann. Hugsaði stíft um allt sem væri að gerast í heiminum og ég vissi EKKERT um. Þegar ég komst í netsamband aftur var það til þess eins að ég komst að því að gengi íslensku krónunnar hafði lækkað umtalsvert (í fjarveru minni) og ein sænsk króna kostar mig núna 8,75 ISK. Til að setja þetta í samhengi kostaði Mörtu-lunch mig 474 ISK í dag í stað 448 ISK í síðustu viku. Þetta er hækkun upp á 26 krónur eða sem nemur 5,8%.
Fróðleiksmoli dagsins ha!

þriðjudagur, febrúar 21, 2006

Gestaþraut

Ef ein lest leggur af stað frá Stokkhólmi kl. 17:56 með 29 farþega og önnur leggur af stað frá Gautaborg kl. 18:29 með 48 farþega hvernig í FJANDANUM getur það þá staðist að ef maður hjólar frá Gerdahallen og heim til mín og hjólar á leiðinni í þrjár mismunandi (höfuð)áttir að maður sé alltaf með vindinn í fangið??
Þetta má mér fróðara fólk gjarnan færa mig í allan sannleikann um. (úff, verð að róa mig niður, komin með hiksta af æsingi sko)
Í dag er allt súpergott að frétta, svoleiðis spítast upp hjá mér textafylltar síðurnar í þessu prófi sem ég er að vinna í. Með þessu áframhaldi verð ég búin með það á morgun og væri það þá í FYRSTA SINN Á ÆVINNI sem ég lýk einhverju námstengdu fyrr en ítrustu nauðsyn ber til.
Já og ekki má gleyma -babbaraaa- best af öllu. Ég fann peninga (æi muniði svona blöð sem maður notar til að borga fyrir hluti sem maður vill taka með sér heim) inni á gömlum reikningi sem ég hef ekki notað í háa herrans en hef greinilega fengið svona líka myndarlega vaxtagreiðslu* innborgaða um áramót - án þess að taka eftir því. Já já maður er að komast í sjúklegar álnir hérna - spurning um að gera vel við sig og sína í kvöld og brydda upp á nýjungum í matargerðinni.
Gúddbæ grjónagrautur - helló pekingönd!
*Téð vaxtagreiðsla bendir til þess að undirrituð hafi einhvern tíma átt álitlega fjárhæð inni á téðum reikningi - en sökum hárrar elli og ört hrakandi minnis man hún ekki hvenær það hefur eiginlega verið. Líklega er hér um að ræða (enn ein) mistökin hjá bankanum mínum og hef ég því haft hraðar hendur og dregið mér þetta fé í gegnum svokallað 'bankómat' og mun ég það eigi af hendi láta svo glatt.

mánudagur, febrúar 20, 2006

Ekki er sama - Jón eða séra Jón

Ég er nýbyrjuð að hjóla nýja leið þegar ég fer í ræktina. Hún liggur sumsé meðfram stærri umferðargötu (í stað þess í gegnum háskólahverfið) og er aðeins styttri (eða kannski finnst mér það bara). Nema hvað hún liggur líka meðfram riiiiiiiisastóru hesthúsi -Lunds Ridhus- og oftar en ekki þá eru þvílíku hrossaskítshrúgurnar á gangstéttinni þar sem ég er að hjóla.
HVAÐA VIÐBJÓÐUR ER ÞAÐ!!!!
Ég meina hundaeigendur eru sannarlega látnir heyra það ef þeir taka ekki upp eftir dýrin sín en NEI NEI fínt að vaða hrossaskít upp á mið læri. Ljóta ruglið
Jajamänsan - mér tókst að brenna makkarónurnar sem ég var að sjóða mér í hádegismatinn svo fastar í pottinn að ég held ég verði að henda honum. Kannski best að gera eitt í einu hmmm haaaaaaaa......

sunnudagur, febrúar 19, 2006

Forgangsröðun

Míns er komin með nýtt sjónvarp. Með nýtt á ég að sjálfsögðu við 'annað' en ekki nýtt nýtt. Ég ákvað með öðrum orðum að Desperate Housewives og America's Next Top Model væru mun mikilvægari en matur næstu vikuna. Þroskuð forgangsröðun það. Nýja græjan er svoddan ferlíki að hún tekur hálfa stofuna og er rúmlega langt frá því að vera flatskjár - eiginlega meira svona feitskjár.
Annars sit ég hérna og er um það bil að byrja að sjá eftir því að hafa ekki þvegið mér um hendurnar eftir að ég skar ferska chilipiparinn og áður en ég klóraði mér í nefinu.... ÁÁÁÁÁÁI

laugardagur, febrúar 18, 2006

Blessuð sé minning þess

Sjónvarpið okkar hefur nú ákveðið að safnast til feðra sinna. Það fékk hægt andlát um kl. 09:33 að sænskum staðartíma þann 18. febrúar 2006 og kvaldist lítið. Blóm og kransar vinsamlegast afþakkaðir.
Nú ég hef því hugsað mér að vera með húslestur í kvöld - svona frekar en ekkert - aldrei að vita nema maður kveði líka smá rímur ef andinn kemur yfir mann.
Þeir sem vilja styrkja tækjakaupasjóð Kämnärsvägen 5 D:102 í söfnun fyrir nýju sjónvarpi er bent á hlaupareikning heimilisins (ennþá) í Íslandsbanka nr. 515-26-404049.

föstudagur, febrúar 17, 2006

(Sm)alzheimers

Það hlaut að koma að því. Ég gleymdi (aka læsti) húslyklana mína niðrí þvottahúsi í gær. Það læsist sko á eftir manni þannig að ég var þokkalega skrúfuð (e. screwed) þangað til -babbaraa- ég fattaði að ég gleymdi líka að læsa íbúðinni minni þar sem ég geymdi (en ekki gleymdi) aukalykilinn.
Moral of the story: Stundum er gott að vera gleymin ha!
Annars er föstudagur í dag (it strikes again) og fyrir það ber að þakka !!

fimmtudagur, febrúar 16, 2006

Minn hugur þráir ... hjartað ákaft saknar

Mig langar í ís. Nánar tiltekið mig langar í bragðaref frá ísbúðinni Faxafeni. Eða nei bíddu! kannski langar mig í ís með heitri súkkulaðisósu. Svíar búa ekki til góðan ís - hann er svo stútfullur af rjóma, meira að segja mér finnst það og kem ég þó af löngu kyni mikilla rjómaæta.
ENNN þar sem ísbúðin er í aðeins of mikilli fjarlægð geri ég mér að góðu þessa gulrót sem ég er að narta í. Hún var hálfniðurdregin þarna inni ísskáp og í sjálfsmorðshugleiðingum hvort sem er.
Þetta minnir mig á atriði
"No thank you, I'm a fruitarian"
"I´m sorry, I'm not familiar with that term, what is a fruitarian?"
"We only eat what has actually fallen from the bush or tree"
"So these carrots ....?"
"Have been murdered, yes!"
Úr hvaða bíómynd er þetta and starring who? og getiði nú lömbin mín. Vegleg* verðlaun í boði!!
*sumsé frí gisting og uppihald á Kämnärsvägen 5:D um páskana 2006

miðvikudagur, febrúar 15, 2006

Þá stórt er spurt ...

það er með ólíkindum hvað 'Svíanum' dettur í hug að kalla reiðhjól og hikar ekki við að rúlla á um ísilagðar götur Lundarbæjar. Einn snillingurinn var á undan mér á leiðinni heim úr skólanum í dag. Hjólið var "sé a" (ca.) 20 ára gamalt og svo ryðgað að það sást hvergi hvernig það hefur eflaust einhvern tíma í fyndinni verið á litinn. Dekkin voru á að giska 6 cm breið og gatslitin. Á þessu hjólaði drengurinn að-mér-virtist áhyggjulaus í klakanum. Hjálmlaus - nema hvað. Magnað!
Annars er sé ég fram á masssssaskemmtilegt kvöld með vinum mínum Alvesson & Sköldberg þar sem ég mun reyna að 'discuss how my choice of methodology affects my theoretical choices and the extent to which I will be able to make good analysis, and an interesting and relevant interpretation of the research question' Þetta mun að sjálfsögðu þó ekki gerast fyrr en ég hef 'indicated on what metatheoretical grounds I have chosen said methodology'
Ætlar þessari taumlausu gleði aldrei að linna?

þriðjudagur, febrúar 14, 2006

Þyngdarlögmálið

einu sinni í (ekki-svo-mjög) gamla daga þá gat ég 'stært' mig af því að samsvara mér ágætlega. Til dæmis ef ég fitnaði þá fitnaði ég nokkuð jafnt og ef ég léttist þá léttist ég alls staðar. En ekki lengur .... neeeeeeeeeeeei nei nei nei núna sit ég uppi með frekar vel þjálfaðan efri búk (hel-köttuð og skorin sko!) en neðri búk sem hristist eins og jelly þegar ég hreyfi mig. Þið vitið - víbrar svona ef það er potað í mig - oj bjakk. Ósanngjarnt? JÁ frekar!
Annars er 'Alla-hjärtans-dag' hérna í Sverige í dag - aka Valentine's Day og er víst haldin hátíðlegur um víða veröld. Nú það er skemmst frá því að segja að bónorðin og ástarjátningarnar hafa verið að streyma inn til mín hvaðanæva að í allan dag.
Strákar mínir! Haldið í hrossin - seriously it is embarrassing.

mánudagur, febrúar 13, 2006

svefnpurrka

vááá letidagur, fór með Egil á leikskólann og kom heim aftur og fékk mér smá kríu - já eða fjögurra tíma - en hver er að telja? Svaf sumsé af mér 2 eróbikktíma sem ég hefði getað farið í. Þetta er gott fyrir vöxtinn já já það held ég nú.

saga dagsins ha!

sunnudagur, febrúar 12, 2006

Shopolympics 2006

Jæja fyrsti keppnisdagur í Shopolympics 2006 hófst í Center Syd í gær. Eftir ágæta upphitun og teygjur í Köben á föstudaginn var kominn tími á alvöru átök í gær. Báðar vorum við að keppa í 'fátækra-námsmanna-mínus-70-kílógramma-flokki'. Eftir harða keppni tryggði Katrín Rós sér gullið í 'peppari ársins'. Kom inn á mjög góðum millitíma eftir að hafa náð að hvetja mig til kaupa á gallabuxum, bol og belti á innan við 45 mín. Sjálf tók ég brons í 'eyðslu' en gull í 'góðum kaupum' þar sem heildar greitt verð fyrir téðar vörur var undir 600 SEK sem hlýtur að teljast gríðarlega gott fyrir konu komna fast að þrítugu. Ég held við getum þakkað áralöngum æfingum og reynslunni umfram nýgræðingana í greininni þennan góða árangur sem var að nást hérna í dag.
Nú botnlaus neyslan hélt svo áfram í IKEA þar sem fest var kaup á ýmiss konar (ó)þörfum varningi svo sem dyramottu, teflonpotti, uppþvottaburstum, geymsluboxum etc. svo eitthvað sé nefnt. Lokaviðkomustaðurinn var svo Willy's þar sem keyptur var inn hræðilega meinhollur varningur til brúks í morgunkaffiboði dagsins í dag [sunnudags].

Að öllu þessu loknu var svo skundað á skátamót á 9-unni þar sem snæddur var dýrindiskvöldverður að hætti Katrínar. Kjúklingabringur með ólífum og sólþurrkuðum tómötum, gúmmelaðikartöflum (uppskrift sem verður stolið ójá!) salat og hvítvín. Toppað með ís, ferskum jarðarberjum og hnausþykkri marssósu.

Þetta var ca. 7000 kaloríu dagur!

laugardagur, febrúar 11, 2006

How much wood would a wood chuck chuck if a wood chuck could chuck wood?

Dauði og djö.... hvað mér finnst leiðinlegt að ganga frá hreinum þvotti. Það er annars rangt af mér að segjast bara hata hreinan þvott sem bíður frágangs, ég hata alveg jafn mikið að ganga frá fötum sem er t.d. búið að nota einu sinni og liggja eins og hráviði um allt - það er eins og fataskápurinn minn hafi ælt yfir herbergið mitt. Fyrir utan það að ég skil ekki hvaðan þetta kemur, eina sem ég skipti daglega um eru nærföt og íþróttaföt (sem fara beint í óhreinatauskörfuna). Annars er ég ALLTAF í sömu lörfunum hérna í Lundi. (nokkuð viss um að bekkjarfélagar mínir séu að skipuleggja handa mér fatasöfnun í samstarfi við Svíþjóðardeild Rauða Krossins) Þannig að þetta fataflóð er hið dularfyllsta.
Annað sem ég hef tekið eftir upp á síðkastið er að ég bara get ekki lesið texta sem ekki er jafnaður út í spássíurnar (e. justified) - hvernig er hægt að senda frá sér svoleiðis ringulreið? (Á skalanum 1 - 10 hvað ætli ég sé mikið geðveik að finnast þetta svona mikið atriði? )

þetta eru nú svona helstu pælingar mínar á þessum dýrðardegi 11. febrúar 2006 - Gratulerar Helgi föðurbróðir sem er árinu eldri í dag en í gær MAGNAÐ!

föstudagur, febrúar 10, 2006

Köben og 'kreisí' kúrs

Skrapp til Köben í dag, hætti mér yfir sundið og hitti Siggu Dóru í lunch. Rosa næs. Gerði heiðarlega tilraun til að panta mér sveittan borgara en gekk illa. Hann reyndist überhollur - grillaður og hlaðinn grænmeti - ekki einu sinni tómatsósa á 'kvekendinu'. Sem var náttúrulega ágætt þar sem ég hafði rúmlega fullnægt kaloríuinntökunni með Tuborg classicnum sem ég sötraði með en svo ákallaði súkkulaði&nougat tertan þeirra mig þannig að þegar upp var staðið varð þetta ansi kaloríurík máltíð..... aaaahhhhh OG HVAÐ MEÐ ÞAÐ? You only live once.
Annars varð mér það á að skoða kúrsalýsinguna + lesáætlun og verkefnaálag næsta kúrss (eru tvö ess í því?) og fékk vægast sagt hland fyrir hjartað. Þær eru nett ofvirkar þessar gellur sem ætla að kenna þetta og ég er ansi hrædd um að maður fái heldur betur að vinna fyrir 'kaupinu' sínu í honum. Ég bara hlýt að verða svaðalegur Kína expert eftir þetta. Ellegar skal ég hundur heita!
Annars er alltaf föstudagur - hafiði tekið eftir því?

fimmtudagur, febrúar 09, 2006

Sending að heiman

Er eitthvað dásamlegra þegar maður býr í útlöndum en að fá pakka að heiman? Ég held bara svei mér ekki. Fékk einn svoleiðis í gær - frá mömmunni minni - sem innihélt alls konar gúmmelaði og skemmtilegheit. Séð&Heyrt, Moggann (í alvöru pappírsútgáfu), fylltar lakkrísreimar, kúlusúkk, síðar ullarnærbrækur á okkur mæðginin og bjúgu handa Agli svo eitthvað sé nefnt. Oooh þvílík hamingja. Ég HLJÓP út í Willy's að sækja hann þegar tilkynningin kom loksins í gær.
TAKK KÆRLEGA fyrir okkur elsku mamma og pabbi.
---- ---- ---- ---- ---- ----
Annars er nett tilvistarkreppa í gangi hjá mér í dag. Bara get ekki ákveðið hvernig er skynsamlegast að haga næstu 18 mánuðunum í lífi mínu. En næstu 45 mín ætla ég að eyða í heitu baði - ég veit það þó :)
Baby-steps!

miðvikudagur, febrúar 08, 2006

Gremj....

Ég er í gremjukasti yfir bankanum mínum honum Íslandsbanka. Ég hef verið afar sátt við þá þjónustu sem ég hef fengið þar síðastliðin 15 ár eða svo en í dag er ég ósátt. Eftirtalið leggur sitt af mörkum til gremjunnar:
a) þjónustufulltrúinn minn hættir án þess að maður sé látinn vita eða manni úthlutaður nýr
b) yfirdrátturinn minn vegna LÍN er felldur niður sjálfkrafa þegar LÍN greiðir út námslánin og bankinn tekur sér bessaleyfi að millifæra af öðrum reikningum í minni eigu til að stilla af námsmannareikninginn minn. Að sjálfsögðu án þess að láta mig vita (er það nú einu sinni bara löglegt??)
c) ÍSB finnst rétt að lána bara fyrir 90% af lánsáætlun LÍN í formi yfirdráttar - af því LÍN lánin eru náttúrulega svo gríðarlega há og námsmenn lifa allt of miklu lúxuslífi as it is
d) það virðist í fljótu bragði ekki vera mikið að marka þau loforð sem gefin eru ef fólk gengur í hina bráðsniðugu Gullvild (but the jury is still out on this one)
e) þeir dirfast að skuldafæra á mig vanskilakostnað vegna yfirdráttar sem ÞEIR veittu mér og segja núna að ég hafi farið framúr - SEM ER EKKI RÉTT
og síðast en langt í frá síst - mér er sýnt þvílíkt yfirlæti og hroki þegar ég hringi - FRÁ ÚTLÖNDUM - til að fá útskýringar og svör á þessum ósköpum.
GAAAAAAAAAAAARRRRG ég þoli ekki yfirlæti og það vita þeir sem þekkja mig!!

þriðjudagur, febrúar 07, 2006

Einhvern tíma er allt fyrst....

Ég las í dag grein eftir Eirík Bergmann sem ég nokkuð sammála. (Ég hélt bara að það gæti ekki gerst ;-) Hún er um hið ástkæra ylhýra, íslenskuna okkar sumsé. Það hefur (að sögn) tröllriðið öllu heima á Íslandi umræðan um íslenskuna og hræðsluáróðurinn um að hún heyri brátt sögunni til ef málhreinsunaraðgerðir hefjist ekki hið fyrsta. Ég er í flokki þeirra sem tel mikilvægt að tungumálið fái að þróast með því samfélagi sem það tilheyrir. Ég held við getum öll verið sammála um að heimsmynd okkar sé mjög breytt frá því fyrir 50 árum. Því skyldi tungumálið ekki breytast í takt við þetta? Lítum til dæmis á barnabókmenntir. Það þarf ekki annað en að taka upp barnabók sem var þýdd eða skrifuð á þeim tíma til að sjá þessa þróun. Börn í dag skilja varla þá orðanotkun sem þar er viðhöfð - og ég græt það ekki. Ég tilheyri þeirri kynslóð sem ólst upp við að lesa Fimm- og Ævintýrabækur Enid Blyton og er í fersku minni setningar eins og 'Hvað er atarna Beta litla, hafðu hemil á hegðun þinni. Ég undrast mjög framferði þitt' og 'Þér eruð þorpari Hr. Smith'. Það talar enginn svona í dag (og gerðu raunar fáir þá) og ég get bara ekki ímyndað mér að neinum finnist góð hugmynd að hverfa aftur til þérana og fornfálegrar orðanotkunar þeirra daga.
Það sem ég er sérstaklega sammála Eiríki um er 'misskilningur' Íslendinga um færni þeirra í að beita enskri tungu. Við þurfum að hysja upp um okkur í þeim efnum og auka færnina svo sómi sé að og hafa svo vit á að skilja á milli. Nú má ekki skilja þetta sem svo að mér finnist í lagi að tala vitlausa og lélega íslensku, mér finnst að sama eigi að gilda um hana og enskuna, fólk á að sjá sóma sinn í því að tala hana rétt og vel ef það er að nota hana á annað borð. En ég tel fullkomlega raunhæft að þessar tvær tungur séu til og notaðar í sama landinu án þess að önnur gleypi hina.
Grein Eiríks má finna á heimasíðu Viðskiptaháskólans á Bifröst og Lesbók Morgunblaðsins 4. febrúar 2006

mánudagur, febrúar 06, 2006

L Í N

Dásamlegt fyrirbæri þessi lánasjóður. Nei í alvörunni, ég er ekkert vanþakklát fyrir tilvist hans og finnst auðvitað voðalega gott að geta fengið niðurgreitt lánsfé til að borga fyrir menntun mína og allt það. Það verður samt að segjast að sumar reglurnar eru dáldið undarlegar. Til dæmis sendu þeir mér bréf um daginn sem sagði að ég kynni að eiga rétt á frestun afborgunar námslána þar sem þeir hefðu 'áttað sig á' að ég væri skv. þeirra gögnum í námslánahæfu námi OG væri greiðandi námslána. (það er rétt að taka það fram að þetta var fjöldasending sem fleiri fengu en ég) Þetta var svolítið svona í anda 'YOU MAY ALREADY HAVE WON A MILLION DOLLARS!' bréfin sem maður fékk send í Bandaríkjunum. Eina sem maður þurfti að gera var að uppfylla vitaóuppfyllanleg skilyrði. Enda þegar til kom þá átti ég engan rétt á frestun afborgunar vegna þess að ég hafði verið of tekjuhá á síðasta tekjuári (2005 sumsé). Þannig að ekki einungis eru tekjur mínar tekjuárið 2005 notaðar til að skerða námslán mín allt skólaárið 2005-2006 heldur má ég nota 20% þeirra til að greiða af núverandi lánum. Klassískt ekki satt :)
ENNN sumsé greiðslan fyrir haustönn komin í hús og yfirdrættinum borgið í bili! Best að hætta að kvarta :) :) :)

sunnudagur, febrúar 05, 2006

Dansgenið

Jæja enn ein ljúf helgin að renna sitt skeið. Ég er undir miklum áhrifum frá henni Katrínu og hef setið hérna samviskusamlega alla helgina (þegar gefist hefur auð stund) og límt myndir frá haustinu inn í albúm. Þetta er að taka á sig mynd (he he he no pun intended) og úr er að verða hin fínasta saga. Þá er bara eftir að skrifa smá texta undir og då är det klart!
---- ---- ---- ---- ---- ---- ---- ---- ----
Fórum í kirkjuskólann við Egill í gær, hann vakti mig sko fyrir kl. 08 og þar sem ég hafði sofnað frekar snemma kvöldið áður dreif ég mig bara á fætur og skellti í eina skúffuköku sem síðan var skreytt með Smarties og ljúffengu smjörkremi (svona eins og mar fékk í barnaafmælunum gamla daga). Þetta tókum við með okkur í kirkjuna og það hittist svona líka vel á að það voru íslensk hjón sem búa hérna í Nöbbelöv sem voru akkúrat að skíra tvíburadætur sínar og buðu öllum viðstöddum í létt kaffi, kleinu og flatköku-með-hangikjöti boð á eftir. Kakan kom því sem kölluð ofan í krakkana sem voru frekar sátt. Stelpurnar (sem voru ótrúúúúúlega sætar dúllur) voru skírðar Hildur Ylfa og Katrín Una - sumsé bara svona 'venjulegum' nöfnum.
---- ---- ---- ---- ---- ---- ---- ---- ----
Nú dreif mig svo í ræktina í hádeginu í dag. Það er sko svona 'advanced' Aerobic tími í hádeginu á sunnudögum, hjá henni Jenny minni. Ég fór sko fyrir hálfum mánuði í þennan tíma og var vægast sagt eins og álfur út í hól. Hún hvatti mig nú samt til að koma í dag því þá ætlaði hún að vera með nýja rútínu og það væri auðvelt fyrir mig að koma og læra hana bara almennilega og þá færi ég létt með þetta. Eeehemm já immitt sko, ég hef EKKI vott af dansgeni eða takti í mér og á mjög erfitt með hand-to-foot-coordination svo þið getið ímyndað ykkur hvað ég var glæsileg í þessum tíma. Hékk samt með út allann tímann enda var þetta hörkupúl, skemmtileg tónlist og ekkert leiðinlegt - alls ekki, bara frústrerandi að ná þessu ekki 100%. ENNNNN þetta kemur svo ég ætla mér að mæta aftur næsta sunnudag og negla þetta. Britney Spears move over!!
---- ---- ---- ---- ---- ---- ---- ---- ----
Í dag var svo farið í marglofaða og umtalaða bíóferð með Leó og Egil á Chicken Little (á sænsku auðvitað) og svo gerðum við Katrín heiðarlega tilraun til að setjast inn á Espresso House of fá okkur 'rólegan' kaffibolla - já nei nei ekki svo mikið rólegur. Egill og Leó eru vægast sagt ekki kaffihúsavænir og hömuðust og djöfluðust út um allt og uppá öllu þar til okkur var ekki lengur vært þarna inni og flúðum. Nú er Katrín sumsé með þá úti í brekku til að leyfa þeim að fá útrás fyrir alla þessa hreyfiþörf, planið er að þeir sofni þá kannski vært í kvöld. En þvílíkur himneskur indælis friður er hérna inni hjá mér á meðan.... AAAAAAAAAAhhhh!
---- ---- ---- ---- ---- ---- ---- ----- ----
Annars er rétt að senda kveðju til Dr. Hrundar sem á 30 ára afmæli í dag. Another one bites the dust í saumó sumsé. Sorry að ég gat ekki verið með ykkur í gær stúlkur mínar.

föstudagur, febrúar 03, 2006

TGIF

Ég elska föstudaga, búin í skólanum kl. 11 og ÖLL helgin framundan. Ekki að ég ætli að gera eitthvað mega sega um helgina en æi þetta er bara svo sweet.
Hið ótrúlega gerðist í gær þegar ég fór í alvörunni í Åhléns og keypti albúm og byrjaði í gærkvöldi að setja myndirnar inn í það. AMAZING í ljósi þess að síðustu myndir sem ég setti í albúm eru síðan Egill Orri var svona ca. 9 mánaða. En batnandi konu er best að lifa og það er takmarkið að klára þetta yfir 'Let's Dance' í kvöld.
---- ---- ---- ---- ---- ---- ----
OKEI weird. Síminn minn hringdi sumsé rétt í þessu og þegar ég tók upp tólið kom svona sjálfvirkur símsvari sem sagði 'Congratulations! You have just won an all expenses paid cruise in the Carribean. To claim your price please press 9, that is the number 9 key on your phone'. Þetta var sumsé þarna sem ég skellti á. Erum við að sjá nýjar hæðir eða lægðir í - ja hverju nákvæmlega - telemarketing?? Þetta var allavegna frekar streijnds.

fimmtudagur, febrúar 02, 2006

af launamálum og mótmælum

Samkvæmt nýlega birtri könnun telur meðal-Svíinn að það sé sanngjarnt að 'forstjórinn' sé með um eða rúmlega tvöföld laun 'starfsmannsins á gólfinu'. Í raunveruleikanum er þetta náttúrulega ekki þannig. Ég verð samt að segja að ég var hissa þegar ég las Metroið í dag þar sem birt var úttekt á launum ýmissa flokka yfirmanna í sænskum fyrirtækjum, jafnt einkareknum sem opinberum. Þar kom fram að hæst launaði millistjórnandinn sem könnunin tók til var markaðsstjóri Shell olíufélagsins, sem nota bene ber ábyrgð á öllu markaðsstarfi fyrirtækisins í Skandinavíu, á Stóra-Bretlandi og Írlandi. Þessi maður sem er 35 ára viðskiptafræðingur er þó ekki með nema ríflega 60 000 SEK á mánuði (sem samsvarar tæplega 497 000 ISK FYRIR skatta). Þetta fannst mér athyglivert af tvennum ástæðum
a) Hversu oft hefur maður heyrt að laun forstjóra/millistjórnenda á Íslandi (eða í íslenskum fyrirtækjum) verði að vera samkeppnishæf við það sem gerist erlendis. Augljóslega er hérna ekki verið að bera saman við Svíþjóð
b) Ég ætla mér svo sannarlega ekki að vera með mikið lægri byrjunarlaun en þetta (fyrir skatta) eftir að ég lýk þessari mastersgráðu minni og ég er þó ekki tilbúin að vera til taks 24/7 eins og þessi vesalings markaðsstjóri segist þurfa að vera þegar hann réttlætir 'ofurlaunin' sín.
---- ---- ---- ---- ---- ---- ---- ----
Annars heldur þessi múslima-mótmæla-skopteikninga-vitleysa áfram að tröllríða fréttaflutningi hérna í Svíþjóð. Nú hafa samtök múslima í Svíþjóð tilkynnt að þau hvetji sænska múslima ekki sérstaklega til forðast danskar vörur en það sé ósköp skiljanlegt ef þeir gera það. Þetta er svo mikið bull að það er ekki eðlilegt. Las nokkuð góðan pistil um það í Metro í dag líka. Leyfi mér að grípa aðeins í hana þar sem ég er einstaklega sammála höfundi
Hvernig getur teikning verið mikilvægari en líf? (höf. Boris Benulic)
"Ef blóð væri góður áburður myndi Darfur hérað í Súdan vera sem aldingarðurinn, gróðri vaxin og paradís líkast. Þar hafa janjaweedskæruliðar myrt um 300 000 manns. Þessi þjóðernishreinsun er varin með því að um sé að ræða svarta zurga (negra) sem séu neðanmálsfólk og ekki "alvöru" múslimar.
Síðustu daga hafa sameinuðu arabísku furstadæmin og Saudí-Arabía ásamt fleiri arabalöndum mótmælt kröftuglega, það hafa verið mótmælagöngur og fánabrennur. En það er ekki Súdanski fáninn sem er brenndur og það er ekki í Khartoum sem arabalöndin loka sendiráðum sínum. Það eru skopteikningar Jyllands-Posten af spámanninum Múhameð sem hafa kallað fram þessi ofsafengnu viðbrögð.
Finnst mótmælendunum sumsé að það sé alvarlegra brot gegnt Kóraninum að birta myndir af Allah og spámanni hans Múhameð en að myrða 300 000 saklausra múslima?"
LÓGÍSK hugsun? Dæmi hver fyrir sig.

miðvikudagur, febrúar 01, 2006

Pirr pirr

Í dag fór ég með bekknum mínum á kínverskan veitingastað niðrí bæ og fagnaði kínversku nýári sem gekk í garð á laugardaginn. Við átum skrítinn mat sem átti lítið skylt við Kína og skáluðum ári Hundsins en þetta var nú samt bara þrælgaman - það er nefnilega svo mikið af skemmtilegu fólki með mér í bekk. Þetta varð samt til þess að ég komst ekki í eróbikktímann minn en maður getur víst ekki gert allt.
----- ----- ----- ----- ----- ----- ----- -----
Fékk nett stresskast yfir því að eiga myndirnar frá Lundi bara inni á vélinni minni svo ég tók mig til og brenndi þær á disk um daginn og bætti svo um betur í gær þegar ég fór með þær í framköllun. 297 stk takk fyrir. Meingin er svo að setja þetta oneday someday í albúm en þau sem ég hef séð hérna hingað til eru svo forljót að ég bíð aðeins. Þetta verða eflaust einhvern tíma stórmerkilegar minjar.
----- ----- ----- ----- ----- ----- ----- -----
Allt brjálað hérna á Eyrarsundssvæðinu yfir skopmyndabirtingu Jyllands-Posten af spámanninum Múhameð. Þetta mál í heild sinni fer í taugarnar á mér. Ég get alveg fallist á að það beri að sýna trú annarra (eða trúleysi eftir því sem við á) virðingu og allt það en þetta mál er svooooooooooooooo being blown out of proportion. Ég meina sprengjuhótanir, boycott á dönskum vörum og óeirðir, tal um ofbeldi gagnvart dönskum ríkisborgurum í Miðausturlöndum eru bara aðeins of mikið af því góða. Hvað heldur þetta fólk eiginlega að það sé?! Ef það ætlar að funka í þessum heimi þá verður það bara að þola að á Vesturlöndum ríkir tjáningar-, rit- og prentfrelsi og það þýðir að ALLIR (já líka kjánarnir) mega hafa skoðun og tjá hana á þann hátt sem þeir vilja. OG HANANÚ!
Free counter and web stats