Veröld sem var.....
Var að rifja upp hitt & þetta, gagn og nauðsynjar sem hafa komið og farið í áranna (og jafnvel aldanna) rás og staðreyndir um íslenskt þjóðfélags- og efnahagslíf sem manni finnst hálffyndnar í dag en var víst raunveruleiki fyrir "örfáum" árum.
ávísanir: Ég man mjög skýrt eftir því að hafa fengið ávísun hjá pabba/mömmu fyrir hinum ýmsu nauðsynjum. Meira að segja man þá tíma þegar maður var ekki sjálfkrafa álitinn vafasamur skjalafalsari af því að greiða með svoleiðis fyrirbæri.
skífusímar: Blessuð börnin sem í dag stauta sig fram úr hinu sígilda "Við lesum" horfa forviða á mynd af þessu skrítna tæki við síklassísku setninguna "Ari símar í Völu". Ég man ennfremur eftir að hafa við fundist flottasta fólkið í sveitinni þegar pabbi kom heim með takkasíma í farteskinu úr ferð til Hollands árið 1984.
gjaldeyrishöft: Muniði eftir að hafa þurft að fara með flugseðilinn í bankann og láta stimpla hann til að mega kaupa gjaldeyri. Já eða jafnvel að þurfa að panta hann og ef hann var ekki til tók maður ferðatékka!
biðröð hjá 'bankastjóra': Ég man svo vel eftir mömmu & pabba ræða það að þurfa að heimsækja útibússtjórann til að biðja (ég segi betla) um lán. Lán sem að sjálfsögðu þurfti að réttlæta fyrir þessari allsráðandi fígúru sem hafði, svo ég vitni í Heilsubælið í Gervahverfi, "þessar saurugu hjónarúmsáætlanir algjörlega í hendi sér"
videotækin: Ókei kannski ekki alveg farin ennþá en það styttist í það. Ég man þegar þau voru rétt að komast í almenningseign og eftir að hafa fundist foreldrar mínir alveg ferlega hallærisleg að kaupa ekki slíkt tæki fyrr en uppúr 1988. Það verður stutt í að börnin okkar viti ekkert hvaða tæki þetta eru
kassettur & þar til gerð tæki til að spila þau: Man sérstaklega eftir að hafa öfundað systur mína ógurlega þegar hún 1986 eignaðist tvöfalt kassettutæki. Tækið var skelfilega ljótt, risastór svartur kassi og það var hægt að losa hátalarana af sitt hvoru megin og stilla þeim upp á vegg og í þeim tilgangi fylgdu rosalega langar snúrur tækinu til að tengja í tækið.
Maxi popp: og man sérlega eftir þegar það "breikþrú" átti sér stað að bióin hættu að selja þessa pródúkt og fóru að poppa sjálf.
Lítil kók í alvöru gleri: með lakkrísröri - var eitthvað betra? eða meira "trít"?
Sinalco: muniði eftir orginal flöskunum frá Ölgerðinni.
Þetta gosflöskutal minnir á annað fyrirbæri sem var að fara með gler út í sjoppu og (versla fyrir þau). Maður uppskar oftar en ekki ágætlega ef maður fékk að fara með gler fyrir ömmu Sínu þegar hún bjó í Hlaðbænum.