fimmtudagur, mars 31, 2005

Gáfnafar kvenna

Hún Maj-Britt vinkona mín, sem ég tek öllu jafna mikið mark á, sagði mér það í gær að hún hefði lesið um bandaríska könnun nýverið sem gerði grein fyrir því að eftir því sem greindarvísitala kvenna hækkaði þeim mun minni líkur væru á því að þær myndu giftast. Finnst ykkur þetta ekki dásamlegt? Þetta er líka skemmtileg tilviljun því ég var einmitt að taka greindarpróf á netinu í gærkvöldi og ég held ég steinþegi bara yfir niðurstöðunni, ekki að hún skipti máli a.m.k. ekki fyrir mig en ég þori augljóslega ekki að taka sjénsinn á því að tilvonandi eiginmaður minn (sem by the way er ófundinn) fari undan í flæmingi þegar hann uppgötvar að ég er ekki borderline retarded. Spurning hvort þetta eigi við sama hvernig maður lítur út ég meina ef maður er ofboðslega feitur og subbulegur nú eða bara drephrútleiðinlegur en bara obbosslega nógu vitlaus er maður þá samt ómótstæðilegur í augum karlmanna? Er heimskan það sem er aðalaðdráttaraflið? Nei ég er bara svona að velta fyrir mér hvort ég geti bara hætt að mæta í ræktina.
Fékk annars þá dásamlegu upplýsingar hjá LÍN í dag að ég mun þurfa að lifa af ca. 650.000 ISK fyrsta námsárið mitt í mastersnámi en mér reiknast til að það sé um 72.000 ISK pr. mánuð. AUGLJÓSLEGA mun ég lifa í kjöltu munaðar þarna í Svíaríki.

þriðjudagur, mars 29, 2005

Af umburðarlyndi og æðruleysi

Síðan ég komst til vits og ára hef ég haldið því fram að ég sé nokkuð umburðarlynd manneskja. Að öllu jöfnu er mér nákvæmlega sama hvað aðrir gera við líf sitt svo lengi sem það káfar ekki upp á mig né mína. En ég er eiginlega farin að hallast að því að þetta sé rangt hjá mér. Ég hef nefnilega ekki snefil af umburðarlyndi gagnvart heimsku og heimskulegum hlutum. Eða réttara væri að segja gagnvart því sem mér finnst vera heimska og heimskulegt. Þarna spilar líka æðruleysið inn í en ég hef nýlega gengist við því að mér var einfaldlega ekki úthlutaður snefill af þeim annars ágæta og mjög svo nytsamlega mannkosti. Ég ÞOLI ekki að geta ekki stundum breytt hlutum sem mér finnast að ættu að vera öðruvísi en þeir eru, þetta vita þeir sem þekkja mig og hafa eflaust þurft að tileinka sér hvort tveggja umburðarlyndi og æðruleysi við að þurfa að hlusta á mig pirra mig á hinum ýmsu málum í gegnum tíðina. Sjálfri mér til varnar get ég sagt að þetta vonda skap mitt endist yfirleitt ekki mjög lengi í mesta lagi nokkrar mínútur í senn sem verður að teljast mér til tekna þegar hlutirnir eru settir í samhengi.
Ég veit að hið rétta væri eflaust að taka sig saman í andlitinu og reyna að verða betri manneskja, ef mig svíkur ekki minni (sem er þó frekar líklegt þar sem ég þráist af CRAFT* á háu stigi) þá hljóðaði hið árlega áramótaheiti mitt upp á einmitt það þetta árið. Stundum hef ég bara ekki orku í að vera betri manneskja. Stundum langar mig bara að vera geðvond og pirruð, sérstaklega á dögum eins og í dag þar sem ég er sárþjáð af ennisholukvefi.
Var samt ekki einhvers staðar skrifað að the path to enlightenment starts with self-knowledge? Nú ef svo er er ég þá ekki þokkalega vel sett að gera mér grein fyrir þessum veikleikum mínum? Að vita að maður veit ekki neitt er nefnilega að vita heilmargt...... :)
*CRAFT = Can´t remember a fu***** thing

mánudagur, mars 28, 2005

Kvef....

....er mest pirrandi 'sjúkdómur' í heimi PUNKTUR

fór samt í ræktina. Er ekki öruggt að það hefur enginn drepist af því?

sunnudagur, mars 27, 2005

Nýtt líf í vændum

Það er orðin nokkuð langt síðan ég hef bloggað, reyndar næstum því 2 ár til að vera nákvæm. Vildi að ég gæti sagt að ótrúlega margt og spennandi hefði á daga mína drifið síðan þá en sadly þá hefur líf mitt verið óvenjulega venjulegt frá því ég skrifaði síðast. Ég bý á sama staðnum og er í sömu vinnuni en nú er reyndar að verða breyting á og hence (ég sletti ROSALEGA á ensku, get used to it kiddies) ákvað ég að opna nýja bloggsíðu. Eftir 4 stutta mánuði hyggst ég nefnilega leggja land undir fót ásamt augasteininum mínum honum Agli Orra og flytja búferlum til Svíaríkis nánar tiltekið Lundar þar sem ég hef fengið inngöngu í meistaranám í stjórnmálafræði við Lundarháskóla.
En sumsé, ætlunin er að reyna að halda úti daglegum hugrenningum mínum þar til að því kemur og á meðan á dvölinni stendur. Ekki vera feimin að kommenta.
Free counter and web stats