miðvikudagur, nóvember 29, 2006

6 dagar í flutning

Það er skrítin tilhugsun að næsta miðvikudagskvöld mun ég ekki búa lengur hérna í Lundi. Eiginlega bara hræðilega skrítið. Það þýðir auðvitað ekki að ég sé ekki spennt og glöð yfir því að vera að fara heim og takast á við ný verkefni (og soldið af þeim gömlu raunar) en mér hefur liðið ofsalega vel hérna í Lundi og kynnst mörgu frábæru fólki sem að sjálfsögðu verður söknuður að. Heilt yfir held ég að það sé óhætt að segja að þessi ákvörðun um að koma hingað hafi verið ein sú heilladrýgsta í mínu lífi. Það er nú ekki oft sem maður getur sagt það :D
En það þýðir víst ekkert að vera að hugsa of mikið um það í bili, næg eru verkefnin framundan svosem pökkun, frágangur ..... og ó já eitt stykki ritgerð.

mánudagur, nóvember 27, 2006

Bloggleti

Ég er kannski búin að vera soldið löt að blogga síðustu dagana en ég er búin að vera mjög dugleg að styrkja sænska efnahagskerfið. Svona er maður ósíngjarn og hugulsamur. Ég er sumsé búin að vera mjög dugleg að dressa mig upp í hlutverk hinnar alvarlegu businesskonu, "You gotta dress for the job you want" er það ekki þannig?
Annars er sveitt seta við ritgerðarsmíð á dagskrá núna næstu daga. Æi mar er nánast næstum því fegin :D

miðvikudagur, nóvember 22, 2006

China blue

Var að koma af kvikmyndahátíð sem haldin var af deildinni minni. Ég hafði að vísu bara tækifæri til að fara á eina mynd af 4 sem sýndar voru í dag. Sú hét China blue og er tekin inni í gallabuxnaverksmiðju í Sanxi sem er nálægt Canton í S-Kína. Fylgst var með ungri stelpu Jasmine þar sem hún flytur úr sveitinni sinni í Mið-Kína og "freistar gæfunnar" í stórborgunum líkt og um 130 milljónir annarra sveitakrakka gera árlega. Þetta er fólkið sem meðal annars saumar fötin sem við hérna á Vesturlöndum göngum í.
Týpískur vinnudagur hjá Jasmine og vinnufélögum hennar er 15 - 18 klst og oft er unnið allan sólarhringinn þegar pantanir eru komnar á eftir áætlun. Tímakaupið er aðeins misjafnt eftir því hvert verkefnið er en Jasmine þessi vann við að klippa alla lausa þræði af buxunum áður en þær eru pressaðar. Það tekur hana ca. 30 mín að klára einar buxur og fyrir það fær hún um 6 US cent á tímann eða um 4,3 ISK. Fyrsta mánuðinn fékk hún ekkert borgað því fyrstu laununum er haldið sem "tryggingu" fyrir húsnæðið (12 deila herbergi) sem útvegað er af verksmiðjunni og er í verksmiðjubyggingunni. Laun eru greidd eftir dúk og disk (en eru þó greidd) og rukkað er fyrir allar aukasporslur svo sem heitt vatn til að þvo sér og fötin sín, mat og húsnæði. Ef upp kemst um leti eða þú ert seinn í vinnuna ertu sektaður. Ef þú stelst út fyrir verksmiðjuveggina á kvöldin ertu líka sektaður.
Sýndur var samningafundur verksmiðjueigandans og stór bresks kaupanda þar sem samið var um verð á gallafatnaði og þegar verksmiðjueigandinn bauð verðið $4.3 pr. flík (sumsé ca. 310 ISK) var honum sagt að það væri of hátt og kaupandinn hefði ekki efni á að borga meira en $4 TOPS!
Samkvæmt viðtölum við eftirlitsmenn "kínversku vinnumálastofnunarinnar" var þessi verksmiðja með þeim betri á svæðinu sem þekkt er fyrir fataverksmiðjur sínar.
Fram kom að ef verksmiðja reyndi að greiða lögbundin lágmarkslaun og virða hvíldartíma starfsmanna er ekki sjéns að sú verksmiðja gæti staðið undir þeim kröfum um framleiðslukostnað sem vestrænir viðskiptavinir eins og t.d. Wal-Mart og Levi's gera. Það má hugsa þetta næst þegar maður kaupir flík sem er "made in China"
Auðvitað hefur maður heyrt þessar sögur áður og veit að þetta viðgengst en manni varð samt hálfflökurt að sitja og horfa á þetta og sjá aðstæðurnar sem fólki er boðið upp á. Það að sjá andlit og nöfn sett í samhengi við þessa iðju gerði þetta allt miklu raunverulegra. Ömurlega döpur hlið á hnattvæðingunni. Á sama tíma getur maður þó ekki varist þeirri hugsun hvað þessar stúlkur væru að gera ef þær væru ekki að vinna við saumskapinn. Maður reynir að gerast ekki sekur um relativisma en væru þær ef til vill bara worse off?

þriðjudagur, nóvember 21, 2006

Bugga' - Bugga' - Bugga'

ég hef ekki hugmynd um hvað þetta orð þýðir - sá bara Hugh Grant vera að tauta það í sífellu í bíómynd einu sinni og hann var á svipinn eins og hann væri í djúpum skít.... þannig að ég held það eigi við mig núna.

Þessi bévítans ritgerð gengur ekki rassgat hjá mér. Ég er búin að sitja við tölvuna svo að segja í allan dag en einhvern veginn gerðist ekki neitt nema tölvupóstur, bloggrúntur og annar + símtöl og %/$#@/%$&)#" MSN sem er btw tímaþjófur dauðans!



Æi mig klæjar bakvið augasteininn - nennir einhver að klóra mér?

mánudagur, nóvember 20, 2006

Hlægja eða gráta???

Rakst á þessa grein eftir gestapenna vikunnar inni á Tíkinni í gær.

Hlægja eða gráta? Lesið hlutann 'koma konunnar' og dæmið sjálf!


Greinin

sunnudagur, nóvember 19, 2006

Shopping trip og kaffidóni

Í gær héldum við Katrín og Bryndís í margyfirlýsta barnlausa verslunarferð. Förinni var heitið í "nýtt" og "ferskt" moll að nafni Burlöv center. Þessar nýju veiðilendur voru rannsakaðar vel og vandlega og hver okkar náði að eyða þó nokkrum hundraðköllum. Mín keypti sér gallabuxur, peysu, belti og bol í H&M, tvær íþróttahettupeysur í Stadium og einn kjól í Verð'a máta (aka vero moda). Að auki mátaði ég "gordjös" gráa ullarkápu í MQ (svo flotta að ég gæti þurft að fá hana í jólagjöf) og eina potential vinnudragt.
Nema hvað, að búðarrápinu loknu og ca. 20 mín fyrir lokun ákváðum við að setjast á Espresso House of fá okkur einn latte auk þess sem ég píndi Bryndísi til að deila með mér sneið af "kladdköku". Fyrst stóð ég nú og beið góða stund eftir afgreiðslu en þegar afgreiðsludrengurinn lét svo lítið að snúa sér að mér og ég bað um áður tilgreindan varning sagði hann "ja við erum sko að loka þannig að þú verður þá að taka kökuna með þér" - "" sagði ég, "og hvernig fer ég að því" (hélt í einfeldni minni að hann myndi kannski bjóðast til að láta mig fá hana á pappadisk og láta plastgaffal fylgja). "það er þitt vandamál" sagði hann matter-of-factly. ?????? EXCUSE ME! Ég veit að það er ekkert alltaf gaman að vinna við afgreiðslustörf en MÁ ÞETTA? (þ.e. ef maður er ekki Dani). Ég varð kjaftstopp og eins og þeir sem þekkja til vita gerist það nú ekki nema einu sinni á obbosslega margra ára fresti.

föstudagur, nóvember 17, 2006

Hún á ammæli í dag

Hún á afmæli í dag, hún á afmæli hún MajBritt, hún á afmæli í dag.





INNILEGAR HAMINGJUÓSKIR MEÐ DAGINN ELSKU BESTA VINKONAN MÍN!
Vona að dagurinn verði frábær og skemmtilegur og yndislegur og notalegur .... alveg eins og þú!
P.s. sænska kjötbollan biður að heilsa!

fimmtudagur, nóvember 16, 2006

Ritgerðarsmíð

Í dag er nákvæmlega mánuður þar til mig langar að geta skilað ritgerðinni. Föstudaginn 15. des er stefnan sett á að hafa þetta svona nokkurn veginn skothelt. Nenni ekki að hafa þetta hangandi yfir mér í jólafríinu. Hitti leiðbeinandann í dag og hún var nokkuð ánægð með mig. Segir að ég sé komin með allt sem þarf, nú sé bara að raða þessu saman á þann hátt að úr verði "góð saga" sem "fangar lesandann".
Hljómar það ekki eins og verkefni fyrir málóða og athyglissjúka?
Á morgun er föstudagur - ligga ligga lá

þriðjudagur, nóvember 14, 2006

The big 3 0



Þegar þessi orð eru skrifuð eru 30 ár og ca. ein klukkustund síðan ég kom í heiminn. Það var kl. 15 þann 14. nóvember og árið var 1976. Ég var lítil og budduleg með nokkuð mikið kolsvart hár og varð fljótlega mjög frek. Af þessu má sjá að fyrir utan kannski háralitinn hef ég lítið breyst frá fæðingu.

Þrátt fyrir gamansamar yfirlýsingar um annað þá get ég nú bara sagt með sanni að mér finnst þetta ekkert hættulegt. Fyrst og fremst held ég vegna þess að ég er bara svo ótrúlega sátt. Já það er eiginlega besta leiðin til að lýsa því hvernig mér líður. Ég er sátt við líf mitt eins og það er og það sem skiptir meira máli við það hvernig það hefur verið. Ég vildi ekkert hafa það neitt öðruvísi (þó það þýði sannarlega ekki að maður sé þar með sáttur við allt sem maður hefur gert eða sagt í gegnum tíðina, meira svona "I've made my peace with it"). Ég held að sú lífsreynsla sem maður á að baki móti mann sem einstakling og ég hef kosið að læra af minni fremur en að eyða orkunni í að pirra mig á henni (æðruleysi was a looooooooooong time a comin' for me sko!). Þannig að (ef svo óheppilega vildi til) að ég dæi á morgun þá myndi ég yfirgefa þessa jörð sátt við "Guð og menn" eins og sagt er. Þannig að það að verða þrítug er bara fínt. Aldur er líka hvort sem er svo afstætt hugtak. Ég er t.d. í miklu betra líkamlegu formi en þegar ég var tvítug og miklu betra andlegu formi en ég var tuttuguogfimm þannig að ég get bara ekkert verið að kvarta :) Hitt finnst mér miklu magnaðra að unglingarnir foreldrar mínir skulu virkilega eiga þrjú börn sem eru þrítug!!

Takk annars elsku bestu vinir og vandamenn sem glödduð mig með samveru um helgina og kveðjum og heillaóskum í dag.

farin að búa til Reykhólabombu-a-la-Addý

tútílú...

fimmtudagur, nóvember 09, 2006

Getting caught in the rain...

Alltaf jafngaman þegar það byrjar að mígrigna AKKÚRAT þegar maður gengur út úr húsi. Lenti í þokkalegri skúr á leiðinni úr ræktinni. Hvað gat kona gert? Kona varð að komast heim til sín að sjæna sig fyrir Íslandsferðina miklu.

Ekki þurr blettur á stelpunni þegar hún kom heim sko - ekki einn!

en jæja annars - farin

tútalú

miðvikudagur, nóvember 08, 2006

Afmælisstelpan

Hún Sigga Dóra vinkona mín á afmæli í dag. Hún er hvorki meira né minna en að fylla þriðja tuginn stelpan.
Innilegar hamingjuóskir elsku Sigga Dóra mín
(I'm coming up right behind you!)
Í tilefni þessa náði ég loksins langþráðu "breikþrúi" í ritgerðinni minni (kannski það hafi verið rigningin?) sem núna er öll að taka á sig mynd þó enn sé nú langt í land.
Land elds og ísa á morgun - get ekki sagt annað en ég hlakki til!

þriðjudagur, nóvember 07, 2006

Snilldarráð

Sennilega hefur hefðbundin póstþjónusta átt á brattann að sækja með tilkomu netsins. Ég veit það svosem ekki ég bara get mér þess til. En fólk þarf engu að síður á þessari þjónustu að halda og ég veit til að mynda fátt skemmtilegra en að fá óvænta kveðju eða pakka á þennan gamla góða máta. Dalandi viðskipti geta því vel verið ástæða þessarar fyndnu uppákomu sem ég lenti í í dag. Ég var sumsé að senda smá pakka í annað land og án þess að upplýsa um innihaldið (viðtakandinn gæti verið að lesa) þá setti ég þetta í sérstakt fóðrað umslag sem var u.þ.b. A4 að stærð. Nú ég fer svo á pósthúsið og ætla að senda herlegheitin. Það var auðsótt mál og vó pakkinn um 680 gr. Það þýddi samkvæmt áberandi upphengdri verðskrá að hann myndi kosta mig 130 SEK í burðargjald. En babbaraa ekki er sagan öll. Stúlkan tekur þá upp forláta spjald með gati á, nokkurs konar eftirlíking af bréfalúgu og stingur bögglinum í gegnum það. Segir svo "það verða 141 SEK takk!" Ég hváði og benti á verðlistann (ég var nefnilega akkúrat með 140 í reiðufé og nennti ekki að fara að borga með korti kæmist ég hjá því) "Já en það er aukagjald ef böggullinn kemst ekki í gegnum staðlaða bréfalúgu" "En pakkinn minn komst í gegnum þetta spjald sem þú varst að máta hann við" - "" sagði hún og bætti svo við "en hann komst næstum því ekki"
Þetta finnst mér algjör snilld! Fín leið að drýgja tekjurnar. Ekki að ég hafi ekki efni á að borga þessar auka 11 krónur en mér finnst röksemdin dásamleg. Kannski mar ætti að fara að prófa þetta trix, t.d. á hótelinu hans pabba. "heyrðu fröken, þú rukkar mig fyrir tvær nætur" - "já þú varst næstum því tvær"

sunnudagur, nóvember 05, 2006

SUPERCALEFRAGILISTICEXPIALADOSCIOUS NAMMIDAGUR

Það var sko feitur NAMMIdagur í gær. Katrín og Leó ákváðu að flýja partýið sem Reynir var með á 3-unni og komu þess í stað í rólegheitin á 5-unni. Ekki bara átum við Katrín fyllta svínalund með kolvetnabombukartöflum og benna (aka bernaissósu) í kvöldmat heldur bættum við um betur og fórum langt með að éta XXX gr. af "blandi í poka" yfir mjög svo furðulegri já og eiginlega bara hundleiðinlegri bíómynd með Jennifer Aniston (ásamt fleirum frekar góðum leikkonum) sem nefnist "Friends with money" (eða ég er að þýða yfir á ensku af sænsku svo ég er hreint ekki viss hvað hún heitir). Anyway hún er ekki skemmtileg og við mælum ekki með henni. Kenningin mín er reyndar sú að maður á alltaf að fara aðeins yfir strikið á nammideginum, þá fær maður svo mikið ógeð að mann hreint út sagt langar ekki í nammi fram að næsta nammidegi. :)
Nú já annars er bara allt gott að frétta sko, ritgerðin geeeeeeeeeeeeeeeengur. Frekar hægt að vísu en ég er búin með hana í hausnum. Þarf bara að dru***** til að pikka hana inn á form sem er aðgengilegt öðrum en bara mér he he :)

föstudagur, nóvember 03, 2006

Burr brrr brrr

Þið eruð að grínast með þennan kulda er það ekki öruggt?

..... nammidagur á morgun = víííí vííí vííí

miðvikudagur, nóvember 01, 2006

Snowing in Shangri La

Brrrr ógeðslega var kalt þegar ég steig út úr húsi í morgun. Gott ef þetta voru ekki snjóflygsur sem voru að stríða mér. Bjakk ég er bara ekkert fyrir þetta verð ég að segja. Jú jú það má vera snjór uppi í fjöllum einhvers staðar þar sem hægt er að fara á skíði og liggja svo á bjarnarfeldi fyrir framan arineld og drekka heitt kakó meðan hríðin stormar úti (uuuuhhh seen to many movies greinilega). En ég hef svo litla þörf fyrir snjó í bæjum og borgum. Nú eins og alþekkt er eru litlir drengir klæddir mjög vel þegar mæðrum þeirra er kalt svo aumingja barnið var sent í sjö lögum af fötum á leikskólann. Hann var eins og Michellin maðurinn og hafði enga stjórn á hreyfingum sínum sem varð til þess að hann datt af hlaupahjólinu en sem betur fer marðist hann lítið út af öllum fötunum sem mamman hafði troðið honum í.
Burtséð frá veðravítinu þá eru gleðifréttirnar þær að í dag er 1. nóvember sem þýðir að ég er búin að skila af mér skýrsluviðbjóðnum + ég fékk marga marga peninga lagða inn á íslenska reikninginn minn frá íslenska skattmanninum. Ég er að vísu búin að eyða stórum hluta þess fjár en það er alltaf gaman að sjá reikningsstöðuna skrifaða í svörtu en ekki rauðu svo ég er glöð.
Free counter and web stats